133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[21:34]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki skilið hvað ég átti við. Ég var að biðja um skýringu á muninum á 10,5 millj. tonnum annars vegar og hins vegar 8 millj. tonna, sem eru samanlagður kvóti samkvæmt íslensk-mónakóska ákvæðinu. Ég er að spyrja hvaða skilning eigi að leggja í þessar 2,5 millj. tonna sem um er að ræða. Það er ekki skýrt í frumvarpinu.

Maður fer í innganginn á frumvarpinu og þar segir um þetta mál með leyfi forseta, á bls. 8:

„Heildarmagn þeirra losunarheimilda sem nefndinni er heimilt að úthluta er 10.500.000 losunarheimildir fyrir allt tímabilið …“

Síðan stendur í sérstökum skýringum við 9. gr. sem maður græðir ekkert mikið á heldur:

„… heildarmagn losunarheimilda sem er til úthlutunar á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012, sem er samtals 10.500.000 losunarheimildir.“

Ég kom fram með skýringartilgátu sem ég gerði ráð fyrir að umhverfisráðherra, frumvarpshöfundur og flytjandi, gæti annaðhvort staðfest eða leiðrétt. Ég hef ekki fengið svar við því enn þá. Ég vona að það verði, ef ekki í næsta andsvari, þá í næstu ræðu.

Ég spurði líka hvort ekki væri alveg öruggt að hömlur á viðskiptum með íslensk-mónakóska kvótann giltu ekki um almenna kvótann, sem ég tel að hljóti að vera um að ræða varðandi þessar 2,5 millj. tonna.