133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[22:48]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að þakka fyrir þessa ágætu umræðu um frumvarpið um losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim fyrirtækjum sem undir það heyra.

Mig langar í stuttu máli að bregðast við ákveðnum spurningum og athugasemdum sem komu fram í umræðunni. Eitt af því sem hv. þm. Mörður Árnason gagnrýndi var að í frumvarpinu kæmi ekkert fram um áform eftir 2012. Mér finnst rétt að halda því til haga í umræðunni, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á, sem fagnaði í sjálfu sér að verið væri að setja fram þetta frumvarp og reglur, að með frumvarpi þessu erum við að setja lagalegar öryggisgirðingar til að tryggja það fyrst og fremst að við förum ekki yfir þessar alþjóðlegu skuldbindingar okkar um losun gróðurhúsalofttegunda. Engar slíkar reglur hafa verið til staðar og ég trúi því að flestir hafi vilja til þess að bæta úr því. Þetta er megintilgangurinn með frumvarpinu.

Vissulega hafa ný áform komið fram eftir 2002 og hugmyndir hafa verið settar fram um ný stóriðjuverkefni hér á landi sem gefa tilefni til þessa endurútreiknings á losun og losunarspám. Þær losunarspár og endurútreikningurinn hefur gefið til kynna að við verðum innan þeirra marka, innan skuldbindinga okkar, en það gæti þó munað litlu ef ýtrustu hugmyndir um stóriðju ganga eftir. Þegar svo háttar hljótum við að sjá að setja verður reglur til að koma í veg fyrir að við förum fram yfir þær þjóðréttarlegu skuldbindingar okkar, og það sé þá kveðið á um það hvernig heimildunum er úthlutað til þessara fyrirtækja.

Vegna þess að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gagnrýndi fjármagn til Umhverfisstofnunar, langar mig að nefna það í stuttu máli. Annars vegar var gerður sérstakur samningur við Umhverfisstofnun um þá vinnu sem ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni að yrði unnin hjá Umhverfisstofnun og sérstök fjárveiting fylgdi þeim samningi, auk þess sem ég tel mjög eðlilegt í allri þessari umræðu að leyfisgjöld frumvarpsins renni til stofnunarinnar til að standa straum af þeirri vinnu sem leggst á hana vegna frumvarpsins.

Hv. þm. Mörður Árnason nefndi í þessu sambandi annars vegar mengunarbótaregluna og hins vegar það að við reyndum ekki með frumvarpinu að skapa nauðsynlegan markað, skapa hagræna hvata til fyrirtækjanna til að draga úr losun. Þá vil ég endurtaka það, eins og ég kom að líka í framsöguræðunni, að ekkert liggur fyrir hvað tekur við eftir skuldbindingartímabilið varðandi takmörkunina eftir 2012. Það má vel vera að alþjóðasamfélagið grípi til skuldbindinga þar sem mengunarvaldar greiða fyrir losun á grundvelli mengunarbótareglu. Það er eitt af því sem er í umræðunni. En ég endurtek það sem ég sagði áðan, að ein ástæðan fyrir því að þetta frumvarp verður að koma fram — við erum að tala um fimm ára áætlun sem verður gerð á grundvelli umsókna frá fyrirtækjum — er einmitt til þess að fyrirtækin viti hvaða takmörk þeim eru sett og þau hafi til fullnustu yfirsýn yfir rekstrarforsendur sínar, hvort rétt sé að ráðast í stóriðju eða ekki á þessu tímabili.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson hafði einmitt orð á að þetta væru dýr fyrirtæki og að horfa þurfi til langtímarekstrar, og af hverju tímabilið sé þá ekki lengra. Þetta fimm ára tímabil er einmitt skuldbindingartímabilið samkvæmt Kyoto-bókuninni og það er einungis það sem við erum að fjalla um í frumvarpinu, en ég viðurkenni að þegar því tímabili lýkur liggur enn ekki fyrir hvað tekur við og það er þá meðal þeirra rekstrarforsendna sem þeir sem hafa hugmyndir og áform um stóriðjuuppbyggingu þurfa að horfast í augu við.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði líka nokkuð ítarlega út í ákveðin ákvæði í frumvarpinu. Ég taldi mig hafa í framsögu minni farið vel yfir hvernig þetta yrði unnið. Til að mynda af hverju það væri í síðasta lagi níu mánuðum áður en rekstur hefst sem skuli sækja um úthlutunina. Nú eru ekki það margir mánuðir þangað til tímabilið hefst, sem er 1. janúar 2008, þannig að það líður senn að því að fyrirtæki þurfi að hefja þá vinnu. En í rauninni er ætlunin sú, þ.e. nefndinni er ætlað það hlutverk að gera áætlun um losun og úthlutun á losun fyrir allt skuldbindingartímabilið strax í byrjun þess. Sú áætlun á að eyða óvissu um væntanlega úthlutun losunarheimilda en úthlutunin fer síðan fram árlega. Atvinnurekstur sem fellur undir lögin getur að þessu leyti búið við ákveðið starfsöryggi gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda eins og hægt er út þetta tiltekna tímabil.

Einnig liggur fyrir að atvinnurekstur sem er þegar starfandi eða mun hefja starfsemi fyrir upphaf skuldbindingartímabilsins hefur forgang og atvinnurekstur sem hyggst hefja starfsemi eða auka starfsemi á tímabilinu 2008–2012 getur hugsanlega lent í þeirri stöðu að ónógar heimildir séu til ráðstöfunar og hann þyrfti þá að afla sér heimilda eftir öðrum leiðum eða hætta við framkvæmdir. Áætlunin er því bindandi í þeim skilningi að ekki er heimilt að skerða úthlutun heimilda til tiltekins atvinnurekstrar sem fær úthlutun á tímabilinu, svo sem vegna þess að nýir aðilar koma inn sem sækja um úthlutun heimilda.

Síðan vildi ég segja og bregðast við ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem fór yfir stefnumörkun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í loftslagsmálum og minna hv. þingmann á stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Ég held að þar sé ekki að finna minni metnað heldur meiri metnað, ef eitthvað er, og metnaðarfyllri markmið en hv. þingmaður gerði grein fyrir í stefnu Vinstri grænna. Þar er, af því að hv. þingmaður nefndi svokallað loftslagsráð, gert ráð fyrir vísindanefnd sem verður falið að skila skýrslu um líkleg áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi á komandi áratugum og jafnframt áætlun um aðlögun að þeim breytingum. Einnig er gert ráð fyrir að skipuð verði sérfræðinganefnd um minnkun nettólosunar gróðurhúsalofttegunda sem á að gera faglegt mat á möguleikum Íslands til að draga úr nettólosun og hagkvæmni einstakra atriða og margt annað mætti upp telja.

Ég vil að endingu, frú forseti, árétta það vegna orða hv. þm. Marðar Árnasonar um að formaður úthlutunarnefndar komi frá iðnaðarráðuneytinu, að sá háttur er hafður á sem samþykktur var hér með þingsályktun þegar Kyoto-bókunin var fullgild og einungis er verið að fylgja þeirri stefnu sem lögð var með þeirri þingsályktunartillögu.