133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:03]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins í stuttu máli. Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, sem er mjög metnaðarfull, eru lagðar til aðgerðir sem gripið verður til í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sex mismunandi uppsprettum. Þar erum við að horfa til orkuframleiðslunnar, samgangna og eldsneytis, iðnaðarferla, sjávarútvegs, landbúnaðar og úrgangs. Auk þess leggjum við til aðgerðir til að binda eða auka bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.

Til eru ýmsar raunhæfar leiðir sem bent hefur verið á hvernig við getum náð því markmiði. Ég held, ef við skoðum t.d. markmið Evrópusambandsins á þessu sviði, að við höldumst nokkuð í hendur. En ég vek athygli á í þessu sambandi hvað við stöndum miklu betur að vígi en allar aðrar þjóðir, með 70% endurnýjanlegra orkulinda sem veldur því góða áliti sem við njótum á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum og er m.a. grunnurinn undir þær viðurkenningar sem fulltrúar stjórnvalda hafa tekið við frá samtökum sem láta loftslagsbreytingar til sín taka. En það er fyrst og fremst endurnýjanlega orkan og vegna þess magns endurnýjanlegrar orku höfum við mun meiri möguleika á að ná þeim metnaðarfullu markmiðum en flestar þær þjóðir sem nota jarðefnaeldsneyti til orkuframleiðslu. Ég held því að möguleikar okkar séu mun meiri en annarra þjóða til að ná sömu markmiðum og til að mynda Evrópusambandið hefur verið að setja sér.