133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

skattlagning kaupskipaútgerðar.

660. mál
[23:16]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skattlagningu skipaútgerðar. Þetta frumvarp er flutt í tengslum við frumvarp um íslenska alþjóðlega skipaskrá.

Vegna ríkisaðstoðar annarra ríkja hafa mál skipast þannig að öll kaupskip Íslendinga í millilandasiglingum sigla undir erlendum fánum og eru launatekjur áhafna þeirra skattlagðar þar. Tilgangur þessa frumvarps er að stuðla að því að kaupskipaútgerðin flytjist aftur til landsins. Í því skyni er í frumvarpinu lagt til að veitt verði opinber aðstoð við kaupskipaútgerðir með tvennum hætti. Í fyrsta lagi er lagt til að farin verði sú leið sem margar þjóðir hafa farið með því að setja sérstaka löggjöf um skattlagningu kaupskipaútgerða sem tekur mið af stærð skipa en ekki af afkomu rekstrar þannig að lagður verði á svonefndur tonnaskattur. Slíkur skattur er m.a. í Danmörku, Færeyjum, Noregi, Hollandi og á Írlandi. Lagt er til að útgerðarfélög sem skattskyld eru hér á landi og hafa skráð kaupskip sín á íslenska alþjóðlega skipaskrá eigi kost á að velja milli tekjuskatts á hagnað og skatts sem ræðst af flutningsrými skipaflotans. Skattstofninn ákvarðast þá sem tiltekin krónutala á hver hundrað nettótonn skips fyrir hvern sólarhring og síðan greiðist 18% skattur af þeim stofni. Gert er ráð fyrir að tekjur af þessum skatti verði óverulegar eða í kringum 1,5 millj. kr.

Í frumvarpinu er í öðru lagi lögð til opinber aðstoð við hlutafélög og einkahlutafélög sem gera út kaupskip skráð á íslenska alþjóðlega skipaskrá og eru skattskyld hér á landi. Lagt er til að aðstoðin felist í fjárframlögum sem svari til 90% tekjuskatts og útsvars af launum áhafna, að teknu tilliti til persónuafsláttar og sjómannaafsláttar, en þeir skattar mundu að öðrum kosti renna til annarra ríkja. Viðlíka aðstoð er veitt í ýmsum öðrum ríkjum, svo sem í Færeyjum og Danmörku.

Erfitt er að segja fyrir um fjárhagsleg áhrif af lögfestingu frumvarpsins þar sem það fer eftir því hversu mörg skip verða skráð hér á landi í kjölfarið. Ákvarðanir bæði íslenskra og erlendra fyrirtækja um það munu ekki aðeins ráðast af því hversu hagstætt skattaumhverfið þykir vera heldur einnig af mismunandi launakostnaði eftir löndum og fleiri þáttum. Kaupskip í íslenskri eigu eru talin vera um 30 talsins og til að gefa til kynna hugsanlega stærðargráðu beinna áhrifa má taka sem dæmi að helmingur þeirra verði skráður hér á landi. Einnig væri þó hugsanlegt að erlendir aðilar sæju sér hag í að skrá skip sín hér á landi. Ef gengið er út frá því að meðalfjöldi í áhöfn 15 skipa sem færi lögheimili sitt til Íslands verði 17 manns og að árslaun þeirra verði um 4,3 millj. kr. að meðaltali er útkoman sú að heildarskatttekjur, að meðtöldu tryggingargjaldi, yrðu um 225 millj. kr. og styrkurinn yrði nálægt 155 millj. kr. Beinn nettóávinningur hins opinbera yrði þannig tæplega 70 millj. kr.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði frumvarpinu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.