133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

skattlagning kaupskipaútgerðar.

660. mál
[23:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég á eftir að kynna mér þetta frumvarp betur en þegar á heildina er litið tel ég að hér sé verið að stíga framfaraskref. (Gripið fram í: Án þess að þú hafir kynnt þér það?) Ég hef kynnt mér þessi mál mjög vel þegar á heildina er litið og stóð fyrir því ásamt fulltrúum úr verkalýðshreyfingunni að fá hingað til lands fulltrúa frá sænsku verkalýðssamtökunum innan kaupskipaflotans sem kynnti okkur m.a. fyrirkomulagið í Svíþjóð en þar hafði gerst hið sama og hent hefur hér á landi að skipaflotinn var allur að færast úr landi. Spurningin er á hvern hátt við getum snúið þessari þróun við. Þótt ég sé ekki almennt stuðningsmaður þess að færa niður skatta er ég það á þessu sviði vegna þess að ég lít svo á að hér sé engu að tapa en allt að vinna. Ef þetta er liður í því að snúa þessari óheillaþróun við ætla ég að verða til þess að styðja þetta frumvarp. Það er reyndar hluti af stærri pakka, ég hef nokkurn fyrirvara um annað frumvarp sem fylgir þessu og fjallar um íslenska alþjóðlega skipaskrá. Það vil ég skoða betur varðandi kjör sjómanna en í því segir að þeir skuli taka kjör samkvæmt kjarasamningum í heimalandi sínu. Það er hlutur sem við þurfum að skoða betur í umfjöllun þingsins en hvað varðar þá almennu stefnumótun sem er að finna í því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fyrir þingið þá tel ég að þar sé um framfaraskref að ræða.