133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

náttúruvernd.

639. mál
[23:26]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að verndun bergtegunda og steinda verði styrkt, hins vegar er lagt til að möguleikar til endurskoðunar stjórnvaldsákvarðana á grundvelli náttúruverndarlaga verði auknir frá því sem nú er með því að mæla fyrir um kærurétt umhverfisverndar og útivistarsamtaka vegna ákvarðana sem varða náttúruvernd.

Á undanförnum mánuðum hafa komið til úrlausnar stjórnvalda mál sem varða nám sjaldgæfra steinda og bergtegunda. Þau mál hafa m.a. varðað friðlýst svæði og þessi mál gefa að mínu áliti tilefni til að styrkja ákvæði náttúruverndarlaga um vernd slíkra sérstæðra fyrirbrigða í náttúrunni. Brottnám steinda og bergtegunda er óafturkræft og því mikilvægt að tryggja verndun þeirra tegunda sem hafa hátt verndargildi. Að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar er lagt til að ákvæði 53. gr. náttúruverndarlaga um friðlýsingu verði breytt þannig að það nái jafnframt til bergtegunda og bergforma. Þannig verður einnig unnt að friðlýsa slíkar náttúrumyndanir annaðhvort svæðisbundið eða yfir landið allt. Jafnframt þessu er lagt til að ákvæði um röskun friðlýstra náttúruminja verði styrkt. Kveðið verði á um að innan friðlýstra náttúruverndarsvæða sé óheimilt að losa um, nema brott eða skemma hrafntinnu í formi bergglers sem og tæra silfurbergskristalla lengri en 5 cm. Er lagt til að sama regla gildi um sjaldgæfar tegundir steinda og bergs sem friðlýstar kunna að verða samkvæmt 53. gr. laganna. Auk þess er lagt til að kveðið verði á um að óheimilt sé að nema brott eða losa steingervinga af fundarstað. Lagt er til að aðeins verði heimilt að víkja frá þessum reglum í þágu jarðfræðirannsókna.

Meginregla stjórnsýsluréttarins varðandi kæruaðild er sú að aðeins þeir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvörðun. Á sviði umhverfisréttarins er viðurkennt að kæruaðild geti verið rýmri en á öðrum réttarsviðum. Á sviði náttúruverndar gildir svokallaður almannaréttur, þ.e. réttur almennings til umferðar um landið og náttúruupplifunar. Þykir því eðlilegt að þessi sami réttur nái einnig til umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka þegar um er að ræða stjórnvaldsákvarðanir um náttúruvernd.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði þessu máli vísað til hv. umhverfisnefndar.