136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:28]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þetta er stórt mál, eitt af stóru málunum sem við fjöllum um hér á hv. Alþingi. Við Íslendingar tökum að sjálfsögðu þátt í þeirri umræðu að minnka gróðurhúsaáhrifin og erum sannfærð um að þau séu að verulegu leyti af manna völdum. Það eru a.m.k. allflestir. Vissulega var Sjálfstæðisflokkurinn lengi vel þeirrar skoðunar að þessi áhrif væru ekki af manna völdum en ég held að það sé liðin tíð.

Vissulega er dálítið athyglisvert að einn af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins kemur hér upp hálfum mánuði eftir að Sjálfstæðisflokkurinn gengur út úr ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði forustu og spyr spurninga. Það kom mér ekki á óvart að hæstv. núverandi umhverfisráðherra sagði að hún styddi það sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði í þessu máli vegna þess að forusta Sjálfstæðisflokksins virtist alls ekki vera til staðar. Þó að fyrrverandi forsætisráðherra segði að hann vildi halda í íslenska ákvæðið virtist hann ekkert hafa beitt sér í því. Það var ekki heldur hægt að sjá að fyrrverandi ríkisstjórn hafi beitt sér eitthvað í alvöru fyrir því að ná fram sérákvæðum sem varða flugið. Það voru ekki sendir ráðherrar til að taka á því máli gagnvart öðrum þjóðum. Það var eitthvað reynt en ekki í neinni alvöru. Það var ekki verið að berjast fyrir hagsmunum Íslands.

Það kom líka mjög glögglega fram í viðtali sem ég minnist við fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, hún sagði bara beint út að hún teldi ekki rétt að berjast fyrir hagsmunum Íslands. Og Sjálfstæðisflokkurinn gerði það ekkert frekar. (MÁ: Það var nú ekki nákvæmt orðalag.)

Þetta var stefna síðustu ríkisstjórnar og núverandi hæstv. ráðherra segir einfaldlega að hún styðji þessa stefnu þannig að í raun hefur stefna Vinstri grænna verið ríkjandi hér á síðustu árum — og er enn.