138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

heilsuefling í skólakerfinu.

[15:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég átta mig hreinlega ekki á því þegar hv. þingmaður segir að ekkert sé gert. Það er allt á fullu í skólum landsins og mikil áhersla á hreyfingu þannig að ég skil ekki alveg þessi orð.

Ég vil líka benda á að við höfum fylgst mjög vel með íþróttamálum einmitt núna eftir að kreppan hófst og þátttaka barna og ungmenna hefur ekki minnkað þar. Ég held að það sé ákveðið fagnaðarefni á svona tímum að þar er enn þá mikil þátttaka. Hins vegar eins og ég benti hér á hafa gjaldfrjálsar skólamáltíðir verið á stefnuskrá okkar og það höfum við verið með í skoðun. En eins og hefur komið fram í ræðum mínum hér töldum við ekki færi á því við ríkisfjárlög 2010 að fara í það verkefni, enda er það ekki í stjórnarsáttmála stjórnarinnar.