138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

landbúnaður og aðildarumsókn að ESB.

[15:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin en það væri ágætt ef hann nýtti síðari mínútu sína til að útskýra það betur fyrir mér hvernig í ósköpunum hægt er að færa röksemdir fyrir því að íslenskum landbúnaði verði ágætlega borgið innan Evrópusambandsins ef þjóðin samþykkir það feigðarflan vegna þess að Evrópusambandið er eins og það er. Við vitum fyrir hvað það stendur og við vitum hvernig reglur þess eru.

Bændasamtök Íslands hafa farið í viðamikla vinnu til að afla sér upplýsinga um það hvernig þessum málum hefur verið háttað gagnvart þeim þjóðum sem gengið hafa í sambandið, og þá sérstaklega Norðurlandaþjóðunum. Það er að því er mér skilst einróma niðurstaða bænda að hagsmunum íslensks landbúnaðar sé ekki betur borgið innan Evrópusambandsins. Þess vegna skil ég ekki hvernig hæstv. utanríkisráðherra getur haldið því fram að þetta verði allt í lagi fyrir landbúnaðinn. Hver eru rökin og hver eru skilaboðin til þeirra (Forseti hringir.) fjölmörgu fulltrúa sem nú sitja á búnaðarþingi?