139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og verð að segja að auðvitað orkar allt tvímælis þá gert er, jafnvel hjá allsherjarnefnd.

Ég tek fullkomlega undir túlkun hv. þm. Birgis Ármannssonar, þá lögskýringu á 2. mgr. 1. gr. sem hér hefur komið fram. Það er gert ráð fyrir því að forseti Alþingis skipi rannsóknarnefnd ef Alþingi samþykkir slíka tillögu. Í orðalagi 2. mgr. er beinlínis gert ráð fyrir því að það frumkvæði sé alls ekki einskorðað við þessa eftirlitsnefnd eða allsherjarnefnd, þvert á móti. Það má beinlínis lesa það úr lögskýringargögnum að frumkvæðið geti legið bæði hjá einstökum þingmönnum og nefndum þingsins. Það eru þingmenn sem flytja slíkar tillögur til ályktunar sem kveða á um það í tillögunni hvað rannsaka skuli, hvernig haga skuli rannsókninni og kveði á um fjölda nefndarmanna í slíkri rannsóknarnefnd. Það liggur allt hjá viðkomandi tillöguflytjanda, hvort sem það er einstakur þingmaður eða þingnefnd, t.d. heilbrigðisnefnd, viðskiptanefnd eða hvaða nefnd sem það er.

Ég deili ekki áhyggjum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, en samt er gott að ábendingarnar skyldu hafa komið hér fram til að hægt væri að árétta þau sjónarmið sem ég deili með hv. þm. Birgi Ármannssyni.

Ég vek athygli á athugasemdum um 2. gr. sem koma fram í frumvarpinu til laga um rannsóknarnefndir þar sem ítarlega er fjallað um þennan þátt málsins. Í niðurlagi málsgreinarinnar um þetta segir, með leyfi forseta:

„Rétt er að ítreka að réttur til framlagningar tillagna um skipun rannsóknarnefndar er sá sami og almennt um þingmál, sbr. 38. gr. stjórnarskrárinnar, og er sá réttur ekki einskorðaður við þá nefnd sem fer með eftirlitshlutverkið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Sú nefnd skal þó alltaf taka slíkar tillögur til umsagnar og gefa um þær álit áður en greidd eru atkvæði um þær.“

Þetta kemur fram á bls. 24 í athugasemdum um 1. gr. frumvarpsins.

Ég ítreka að lokum að hér hefur verið vandað til verka. Frumvarpið á sér forsögu. Það er samið af forsætisnefnd og á sér þá forsögu að mjög greinargóð og vönduð skýrsla var samin um eftirlitsnefndir þannig að aðdragandi og flutningur þessa máls er til fyrirmyndar og í góðu samræmi við Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa.

Ég árétta að ábendingar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar voru gagnlegar, en ég get ekki tekið undir þær með vísan til þess sem við hv. þm. Birgir Ármannsson höfum sagt.