141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

kosningar til Alþingis.

595. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000, með síðari breytingum. Ég vil taka mjög skýrt fram að þetta eru eingöngu tæknilegar breytingar því að það er stutt í kosningar og auðvitað á ekki að breyta kosningalögum með stuttum fyrirvara. Þetta eru þó mjög tæknilegar breytingar. Þær lúta annars vegar að því að uppfæra heiti sveitarfélaga sem sameinuð hafa verið frá síðustu kosningum, en þar með hefur heiti sveitarfélaganna verið breytt, og hins vegar að skilyrði um gerð kjörseðla miðað við fjölda framboða. Ástæðan fyrir því er að gefið hefur verið til kynna að framboð verði mörg og þá komast listarnir einfaldlega ekki fyrir á kjörseðlinum eins og hann hefur verið hannaður til þessa. Þess vegna er eftirfarandi lagt til: Ef framboðslistar í kjöri eru fleiri en 17 skulu listarnir prentaðir í láréttum röðum. Þess skal gætt að í röðunum sé sem jafnastur fjöldi lista.

Það er gert til þess að allir listar komist á einn kjörseðil. Þar með hef ég lokið máli mínu.