143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:26]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru hagsmunir allra að höftin verði losuð eins fljótt og hægt er, en það er ekki sama hvernig það er gert og það má ekki heldur kosta hvað sem er og það má ekki bitna á röngum aðilum. Við losun hafta þarf að taka hvert skerf að vandlega athuguðu máli og gæta ávallt að hagsmunum heimilanna og ríkisins. Krónueignir útlendinga eru ekki erlend skuld ríkissjóðs. Ríkissjóði ber engin skylda til að taka erlendan gjaldeyri að láni svo að erlendir krónueigendur geti fyrr skipt krónum sínum í gjaldeyri. Losun hafta má því ekki byggjast á skuldsetningu ríkisins í erlendri mynt.

Krónueignir sem útlendingar eiga eru ekki heldur erlendar skuldir íslenskra heimila. Losun hafta má því ekki byggjast á að heimilin eða fólkið í landinu herði sultaról næstu árin til að skapa sem mestan gjaldeyri, að þjóðin neiti sér um að kaupa erlendan varning og spara gjaldeyri svo útlendir krónueigendur geti hraðar breytt sínum krónum í gjaldeyri. Lausnin má ekki byggjast á því.

Það er mikill þrýstingur frá ýmsum hagsmunaaðilum að losa höftin sem fyrst, að það gerist strax, en hraðinn má ekki vera svo mikill að við setjum hagsmuni heimila og ríkissjóðs í hættu eða að skilið verði við hagkerfið í ójafnvægi.

Sem fulltrúi í samráðshópi þingflokka um lausn fjármagnshafta hef ég notað tækifærið til að koma þessum sjónarmiðum áleiðis til þeirra embættismanna sem vinna nú að farsælli lausn á þessu stóra vandamáli. Þekking á umfangi vandans og mögulegum lausnum á fjármagnshöftunum er nú meiri en áður og það eykur möguleika á að hægt sé að taka vandaðar ákvarðanir í þessu stóra máli. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra, þjóðarinnar og erlendra krónueigenda, að leysa höftin eins fljótt og hægt er. Ég er vongóður um að það muni takast með farsælum hætti.