143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

[14:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur skýrt ýmislegt. Hún hefur í fyrsta lagi skýrt það að staða okkar er sterk vegna lagabreytinga sem síðasta ríkisstjórn stóð fyrir, gegn atkvæðum Sjálfstæðisflokksins, þegar slitabúin voru felld undir höftin og erlendar eignir þeirra. Hún er líka sterk vegna góðrar áætlunar um afnám gjaldeyrishafta og ný skýrsla fjármálaráðherra frá 17. mars er eintóm lofgjörð um árangurinn frá því í mars 2011. Það þarf hins vegar að gera betur.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson lagði hér áðan fram þá frómu ósk að við mundum standa saman í þessu máli og það yrði ekki að pólitísku bitbeini. Því miður er það borin von vegna þess að það eru hagsmunaaðilar sem hafa hag af áframhaldandi höftum. Eftir því sem höft standa lengur er það bæði gömul saga og ný að þeim fjölgar sem hafa hagsmuni af óbreyttu ástandi. Þeir munu berjast með kjafti og klóm gegn afnámi hafta.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að átta sig á tjóninu sem af höftunum hlýst og hversu mikilvægt það er fyrir þjóðarhag að létta þeim af.

Grundvallarveikleikinn sem við stöndum frammi fyrir núna er ráðleysi ríkisstjórnarinnar um hvað taki við af höftum afléttum, hvaða peningamálastefna taki við. Ég verð ekki var við þá stefnu og hlýt að ítreka fyrirspurn mína til hæstv. fjármálaráðherra: Horfist hann í augu við það mat Seðlabanka Íslands að íslenskri krónu fylgja óhjákvæmilega einhvers konar höft til langframa, að afléttum gjaldeyrishöftum? Ef svo er, af hverju í ósköpunum er hann ekki búinn að efna starfsskyldur sínar með því að fara til viðsemjenda okkar á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins og ræða við þá um hvort slík langvarandi höft séu möguleg og innan hvers ramma það er áður, en hann lét sér detta í hug að elta Framsóknarflokkinn í þeirri (Forseti hringir.) ömurlegu skógarför sem þeir hafa nú lagt af stað í, með það að markmiði að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið?