144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

raforkumál á Norðausturlandi.

569. mál
[17:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það gleður mig að sjálfsögðu að hæstv. ráðherra hefur þegar skipað starfshóp í þetta mál. Það hefur farið fram hjá mér en er bara mjög gagnlegt að svo sé og gott að hann er búinn að halda sinn fyrsta fund. Það verður spennandi að sjá hvaða tillögur hann gerir í sinni fyrstu skýrslu um kortlagningu á vandamálunum á þessu svæði sem kemur þá í október á þessu ári.

Ég legg áherslu á að ég held að mikilvægt sé að horfa á stöðu þessa svæðis alveg sérstaklega og þá er ég að tala um línuna frá Laxá sem vissulega varðar bæði Landsnet og Rarik í sameiningu og austur á Bakkafjörð og blanda í sjálfu sér ekki þeim úrlausnarefnum sem þarna er við að glíma saman við önnur og stærri álitamál sem tengjast styrkingu byggðahringsins eða byggðalínunnar, ég tala nú ekki um hund yfir Sprengisand. Það hefur í sjálfu sér ekkert erindi inn í þessa umræðu vegna þess að vandamálin eru mjög auðleysanleg með þeirri framleiðslu sem þrátt fyrir allt er til staðar á Norðurlandi og/eða með því að bæta við hana. Þar sem skórinn kreppir hér varðar flutningsgetuna og afhendingaröryggið á þessari löngu einangruðu leið sem ekki er hringtengd.

Ég bind sannarlega vonir við að það komi einhverjar sæmilega róttækar og framsæknar tillögur í skýrslum strax í október og að þeim verði fylgt eftir, að við sjáum einhverja hluti fara að gerast í framhaldinu. Eins og hér hefur komið fram hefur ýmislegt áunnist með störfum samráðshópsins fyrir Vestfirði. Ég hef fylgst með því starfi alveg frá byrjun og lesið árlega þær skýrslur sem þaðan hafa komið. Menn hafa náð þó nokkrum árangri í að draga úr þeim rosalegu sveiflum sem þar voru, flökti á spennu og ýmsu slíku, þó að grunnvandinn sé að sjálfsögðu áfram sá að Vestfirðir eru ekki hringtengt svæði og ekki næg framleiðsla inni á svæðinu sem er alveg það sama og á við á norðausturhorninu.

Þetta er samt vel leysanlegt mál með ekkert óskaplegum tilkostnaði svo fremi sem það (Forseti hringir.) er sett í tilhlýðilegan forgang.