144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

vandi Búmanna hsf.

550. mál
[17:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um vanda Búmanna hsf. og almennt um stöðu húsnæðissamvinnufélaga og þær lausnir sem unnið er að af ríkisstjórninni, og jafnframt um ástandið hjá Íbúðalánasjóði sem er með tímasprengju í höndunum hvað þetta varðar.

Á liðnum árum, ekki hvað síst eftir hrun, hefur verið rætt mikið um mikilvægi fjölbreyttra búsetuforma og jafna stöðu leigjenda og búseturéttarhafa og eigenda íbúða gagnvart stuðningi ríkisins. Séreignarformið hefur á undanförnum árum verið allsráðandi og íbúðir oft hugsaðar sem fjárfesting ekki síður en heimili og það hefur verið vegna lakrar stöðu íslenskrar krónu og erfiðleika við að tryggja gengi hennar og stöðugleika með öðrum hætti.

Húsnæðissamvinnufélagið Búmenn er félag sem átti að gefa eldri íbúum þessa lands kost á húsnæði á góðum kjörum þar sem búseturéttur dygði til að tryggja öruggt húsnæði. Nú eru undir þessu félagi um 540 íbúðir, en eftir hrun leiddi verðbólgan til hækkunar verðtryggðra lána og húsnæðiskostnaðurinn hækkaði í samræmi við það. Menn hafa horft upp á það að afborganir af einstökum íbúðum hafa hækkað úr 110–120 þús. upp í 180 þús. kr. á mánuði. Það segir sig náttúrlega sjálft að útilokað er fyrir lífeyrisþega, einstaklinga eða láglaunafólk að greiða 180 þús. kr. á mánuði í húsnæðiskostnað. Þá er spurningin: Hvernig bregðumst við við þessum vanda? Það er kaupskylda hjá félaginu á um 65% af íbúðum þess. Búseturéttarhafarnir geta sagt upp búsetusamningi og eiga rétt á að fá greiddan út búseturéttinn í síðasta lagi innan árs frá uppsögn.

Félagið eins og ýmsir aðrir höfðu væntingar í framhaldi af aðgerðum núverandi ríkisstjórnar, þ.e. að færa niður verðtryggðar húsnæðisskuldir heimilanna, að það mundi ná til félagsins. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum náðu þær aðgerðir ekki til Búseta, Félagsstofnunar stúdenta eða húsnæðissamvinnufélagsins Búmanna. Þessi húsnæðissamvinnufélög voru skilin eftir og sitja óbætt hjá garði. Það hefur leitt til þess að félagið á í miklum vandræðum og raunar búsetufélögin sum hver líka. Það er mikilvægt að leita leiða til þess að finna lausnir á þeim vanda.

Þess vegna ber ég fram fyrirspurnir til hæstv. ráðherra hvað hún hyggst gera í þessum vanda, og hvers vegna húsnæðissamvinnufélögin njóta ekki leiðréttingarinnar. Einnig hvort hún hefur ekki áhyggjur af þessu búsetuformi sem er í rauninni mjög spennandi en er nú sett í þessi vandræði. Og hvort einhver endurskoðun á lögunum sé í gangi varðandi þessi félög. Því að ég veit að hæstv. ráðherra hefur talað mjög fyrir þessu formi. Mér sýnist að verið sé að eyðileggja það með aðgerðaleysi stjórnvalda.

Í síðasta (Forseti hringir.) lagi, hver er réttur búseturéttarhafa í húsnæðissamvinnufélögum til vaxtabóta eða húsaleigubóta? Eru áform um (Forseti hringir.) að þeir sem búa í (Forseti hringir.) Búmannaíbúðum fái (Forseti hringir.) húsnæðisbætur?