145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:36]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér líður eins og ég sé stödd í einhverjum skringilegum leikþætti þar sem leikstjórinn er hv. þm. Jón Gunnarsson. Ég veit ekki alveg, það hljómar vel í eyrum að við séum að tala í sátt og samlyndi um rammaáætlun og að við hegðum okkur með ábyrgum hætti þegar við umgöngumst hana, en sjáum hvað gerðist á síðasta þingi. Það varð allt brjálað yfir því að hv. þingmaður tók inn þær virkjanir sem honum hugnaðist og ætlaði að henda þeim í virkjunarflokk.

Hæstv. forseti. Tíu ár þangað til eitthvað fer mögulega að gerast, sagði hv. þm. Jón Gunnarsson hérna rétt áðan. Tíu ár. Ferðamennskan er orðin stærsti iðnaður á Íslandi, skapar okkur langmestar gjaldeyristekjur. 80% þeirra ferðamanna sem hingað koma koma út af því að þeir vilja sjá ósnortna náttúru og ég bara spyr: Eru þessar gjaldeyristekjur í huga hv. þm. Jóns Gunnarssonar eitthvað verri en þær gjaldeyristekjur sem koma frá erlendum félögum, t.d. í stóriðju? Reyndar fáum við voðalega lítið af því, þetta fer allt í móðurfélögin erlendis. Eru þetta verri peningar, er það verra að fólk sé í sínum litlu fyrirtækjum, ferðamennskufyrirtækjum, að sinna þessum iðnaði úti um allt land?

Að síðustu vil ég segja: Það þarf auðvitað að styrkja flutningskerfi raforkunnar. Við eigum nóg af orku. Landsvirkjun hefur sagt að það sé til umframorka fyrir um 15–20 milljarða í kerfinu (Forseti hringir.) en við þurfum að styrkja kerfið alls staðar hringinn í kringum landið til að fólk geti nýtt það. Um það erum við hv. þingmaður sammála.