149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

Fjármálaáætlun og staða flugmála.

[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu mun ríkisstjórnin ekki afturkalla fjármálaáætlun sína, enda er hún byggð á gildandi hagspám. Vakin er athygli á því að það eru óvissuþættir í efnahagsmálum eins og alltaf á við. Hvernig höfum við búið okkur undir óvissuþættina? Við höfum t.d. greitt upp rúma 700 milljarða af lánum á undanförnum árum til þess að vera betur í stakk búin til að takast á við aðstæður sem eru fyrirséðar, þ.e. að kólnað geti í hagkerfinu.

Við höfum líka rekið ríkissjóð með miklum afgangi á undanförnum árum og teflum núna fram áætlun um að reka ríkissjóð með myndarlegum afgangi á hverju ári á næstu árum. Þannig erum við að búa í haginn fyrir áföll, ef þau verða, án þess að þurfa að fara í hallarekstur í ríkisrekstrinum. Við erum að búa í haginn fyrir framtíðina með þeim hætti sem við höfum hagað okkur ár eftir ár eftir ár og birtist svo glögglega í fjármálaáætluninni sem við eigum að ræða á morgun.

Rétt er þetta með loðnubrestinn, það eru vonbrigði, en það eru aðrir hlutir sem ganga betur en fyrir var spáð. Það hefur verið mjög mikill þróttur í hagkerfinu, þannig var t.d. hagvöxtur á síðasta ári mun meiri en við höfðum gert ráð fyrir. Það eru því líka í bland við neikvæðar fréttir mjög jákvæð tíðindi úr efnahagslífinu.

Þegar spurt er hvort ríkisstjórnin sé með einhver áform varðandi þá óvissu sem ríkir núna í flugrekstri þá hefur ríkisstjórnin í marga mánuði fylgst náið með þeirri stöðu og er að sjálfsögðu með sínar áætlanir ef reksturinn stöðvast. Mér fannst hv. þingmaður gefa í skyn að ríkið ætti að stíga inn og tryggja áframhaldandi rekstur. Til þess að geta svarað þeirri spurningu verður þingmaðurinn að gera betur grein fyrir því hvað hann á við. Á hann við hvort uppi séu áform um að ríkið taki að sér að reka flugfélagið, fjármagna það eða eitthvað þess háttar? Ég þarf að vita betur hvað átt er við til að geta svarað þeirri spurningu.