149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

starfsmannaleigur og eftirlit með starfsemi þeirra.

[16:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. málshefjanda fyrir að opna þessa umræðu í dag. Eftir að hafa hlustað á þá sem töluðu í umræðunni á undan mér skynja ég það þannig að umræðan snúist að mestu leyti um starfskjör og aðstæður þeirra sem starfa mestan part hjá innlendum fyrirtækjum í gegnum starfsmannaleigur. Ég held að það sé mikilvægt að halda því í umræðunni og passa upp á það. En málið er að nokkru marki víðtækara en svo, því að það eru ekki bara starfsmannaleigurnar sem hafa séð fyrirtækjum fyrir vinnandi höndum með þeim hætti sem við þekkjum. Og það er mikilvægt að halda til haga að starfsmannaleiga og starfsmannaleiga þurfa ekki að vera sami hluturinn. Það eru prýðilegar starfsmannaleigur starfandi hér sem leggja mikið upp úr því að öllum reglum sé framfylgt og að vel sé búið að starfsmönnum þeirra. En svo eru svartir sauðir inn á milli, eins og við þekkjum.

En þátturinn sem ég vildi fá að benda á til viðbótar við starfsmannaleigurnar sem slíkar er það sem kölluð eru erlend þjónustufyrirtæki. Við fáum reglulega fréttir af því í fjölmiðlum að hin erlendu þjónustufyrirtæki sérstaklega hafi verið að vinna fyrir suma af þessum millistóru og stóru verktökum í stærri verkum þar sem að einhverju marki virðist gert út á það að hver starfsmaður sé hér í innan við 183 daga á hverju 12 mánaða tímabili og losni þar með undan ýmsu er snýr að skattskyldu hér heima fyrir. Ég held að við verðum að skoða það í þessu samhengi. Fremst í röðinni er auðvitað að aðbúnaður sé forsvaranlegur og í lagi og félagsleg undirboð séu ekki liðin. Við verðum að skoða það í því samhengi að starfsmannaleigur (Forseti hringir.) og það sem kölluð eru erlend þjónustufyrirtæki skarast að miklu leyti hvað þjónustu varðar.