149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

umbætur á leigubílamarkaði.

617. mál
[16:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Forseti. Fyrir rúmu ári mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um frelsi á leigubílamarkaði þar sem lagt var til að samgönguráðherra yrði falið að afnema hámarksfjölda atvinnuleyfa til leigubílstjóra, fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna markaðinn fyrir aukinni samkeppni.

Málið dagaði uppi í umhverfis- og samgöngunefnd, ekki síst vegna þess að þá glitti í niðurstöður starfshóps sem var að endurskoða í heild regluverk um leigubílaakstur með hliðsjón af annars vegar áliti ESA, sem komst að þeirri niðurstöðu í rökstuddu áliti að norsk leigubifreiðalöggjöf, sem um margt svipar til þeirra íslensku, fæli í sér brot á EES-rétti, og hins vegar með hliðsjón af frumkvæðisathugun ESA á íslenskum leigubílamarkaði og mögulegum hindrunum á aðgengi þar.

Það sem stofnunin skoðaði helst var hvort aðgangshindranir fælust í ákvæðum íslenskrar bifreiðalöggjafar um fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa á tilteknum svæðum og einnig í kröfu íslenskrar löggjafar um stöðvaskyldu. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum til ráðherra í apríl. Þar kom fram að hópurinn teldi rétt að afnema fjöldatakmarkanir á útgefnum atvinnuleyfum til leigubílaaksturs og enn fremur að fallið yrði frá lögbundinni stöðvaskyldu.

Viðbrögð hæstv. ráðherra þegar tillögurnar voru kynntar voru að tilkynna að hafinn yrði undirbúningur að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar til framlagningar á haustþingi á Alþingi 2019, og þá með víðtæku samráði við hagsmunaaðila. Í ljósi þess sem fram hefur komið, að það þurfi viðamiklar lagabreytingar til að framkvæma tillögur starfshópsins, spyr ég hæstv. ráðherra um stöðuna á þeirri vinnu og jafnframt í leiðinni hvort þess megi vænta, í bjartsýni, mögulega, að málið komi á samráðsgátt stjórnvalda í vor til að vera sem fyrst tilbúið næsta haust.

Enn fremur langar mig að vita hjá hæstv. ráðherra hvort við þessa vinnu sé farið í minnstu mögulegar breytingar til að mæta gagnrýni ESA varðandi íslenskan leigubílamarkað eins og hann er núna eða hvort málið verði unnið enn frekar í frelsisátt að þessu sinni.

Að lokum langar mig að beina sjónum að hlutverki leigubíla í almenningssamgöngukerfinu okkur. Í reglugerð um leigubifreiðar segir að leigubílaakstur sé þjónustugrein sem teljist til almenningssamgangna. Nú liggja fyrir drög um stefnu stjórnvalda um almenningssamgöngur í ráðuneytinu. Drögin voru á samráðsgáttinni og þar var opið fyrir umsagnir til 7. mars sl., ef ég fer rétt með. Í þessum stefnudrögunum er ekki vikið einu orði að leigubílum almennt, leigubílaakstri.

Í ljósi þessa er síðari spurning mín til hæstv. samgönguráðherra sú hvort væntar umbætur (Forseti hringir.) á leigubílamarkaði skipti máli þegar unnið er að stefnumörkun í almenningssamgöngum eða hvort þessi mál séu að mati hæstv. ráðherra alls ótengd.