149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu.

612. mál
[17:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Árið 2006 sagði forstöðumaður í hvalaskoðun á Íslandi að hvalveiðar sem þá voru yfirvofandi myndu drepa hvalaskoðun á Íslandi áður en hægt væri að líta við. En þróunin er allt önnur. Árið 2018 fóru miklu, miklu fleiri í hvalaskoðun en á þeim árum sem vitnað er til, þ.e. árið 2006.

Ég verð að segja líka að það að bera saman fílabein og afurðir af langreyði hlýtur náttúrlega að vera einhver lapsus vegna þess að aðstæður þessara dýra eiga ekkert sameiginlegt. En af því að hv. þingmaður sem bar fram þessa fyrirspurn, sem ég er þakklátur fyrir, talaði um það að mjög fáir borðuðu þetta kjöt tala ég fyrir munn þeirra sem ekki fá að borða þetta kjöt vegna þess að það er ekki á markaði á Íslandi. Það er mjög miður vegna þess að þetta er mjög góð afurð og holl. Ég auglýsi hér með eftir því að meðan verið er að veiða hval á Íslandi, þ.e. langreyði, verði hann seldur á almennum markaði á Íslandi þannig að við fáum aðgang að þessu lostæti.