149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

aðgerðir gegn kennitöluflakki.

670. mál
[17:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég gat ekki annað en tekið til máls þegar ég heyrði hv. þm. Þorstein Sæmundsson segja okkur frá því að hann væri komin með lausn þessara mála, enda hefði hann lagt fram frumvarp um þetta efni. Þá vil ég benda hv. þingmanni á að kynna sér umsagnirnar sem komið hafa um frumvarpið til okkar inn í efnahags- og viðskiptanefnd, því að ég held að eftir að hafa farið yfir þær sé það niðurstaða okkar að sú leið sé ekki fær.

Eins mikið og ég tek undir það sem fram kemur í fyrirspurninni og markmiðinu með því frumvarpi sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson talaði fyrir áðan verðum við að fara varlega í þessum efnum. Eins og hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á þarf að huga að nýsköpunarumhverfinu hér.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra talaði um, þ.e. að það að leggja fram frumvarp tæki með einhverjum hætti á þessu. En við verðum auðvitað alltaf að huga að því að hér sé öflugt og gott umhverfi til nýsköpunar. Það má með engum hætti hefta atvinnufrelsi um of.

Þó að við viljum að sjálfsögðu (Forseti hringir.) öll koma í veg fyrir kennitöluflakk, sem er í rauninni síbrotastarfsemi og þar er einbeittur brotavilji fólks, má ekki taka á heiðarlegum aðilum sem eru hér að reyna að leggja eitthvað til í atvinnustarfsemi.