149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

hvalir.

611. mál
[18:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa ágætu umræðu hér í dag. Ég held að það sé ekkert leyndarmál að okkur greinir á um það á Íslandi hvað gera eigi varðandi hvalveiðar. Í slíkum tilfellum er það mín trú og mín skoðun að það sé bara ágætt að slíkur ágreiningur sé uppi á borðum en ekki undir þeim. Við heyrum það hér í þingsal að við erum ekki öll sammála um þetta og það er líka bara allt í lagi. Mín skoðun er sú að við þurfum að horfa til fleiri en vistfræðilegra þátta, eins og kom fram í máli mínu, ekki síst efnahagslegra, og þá líka hvaða áhrif hvalveiðar hafa á ímynd landsins, ímynd ferðaþjónustunnar, ímynd okkar sem lands sem kennir sig við náttúruvernd og umhverfisvernd.

Aðeins varðandi endurskoðun á lögunum, villidýralögunum, eins og þau eru kölluð í daglegu tali, þá hlakka ég til að fara í þá vinnu. Líkt og nefndin komst að á sínum tíma ber að skoða hvort hvalir og selir eigi frekar heima undir þeirri löggjöf. Ég lofa ekki einu eða neinu um hver niðurstaðan verður varðandi það, en við munum að sjálfsögðu skoða það, enda ágætisrök færð fyrir því að það gæti verið gott fyrirkomulag.

En ég vil að lokum þakka aftur kærlega fyrir umræðuna. Við eigum örugglega eftir að ræða þetta oftar og aftur.