150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[14:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa framsögu á þessu mikilvæga verkefni sem við stöndum öll frammi fyrir og þarfnast stöðugs endurmats vegna þess að hlutirnir breytast hratt. Áhrifanna af þeim gríðarlega samdrætti sem við stöndum frammi fyrir vegna Covid-19 farsóttarinnar gætir í öllum greinum þjóðfélagsins og viðbrögð Alþingis þurfa því að vera hröð. Hagkerfið fer hratt niður á við og það er orðin nánast engin eftirspurn. Samtök atvinnulífsins sögðu t.d. á fundi með fjárlaganefnd að þau hefðu aldrei séð annað eins, við sæjum fram á tugprósenta samdrátt í landsframleiðslu, meira jafnvel en í hruninu 2008 og 2009. Í stærri iðnríkjum gætir allt að 10% samdráttar. Það er því ákaflega mikilvægt, herra forseti, að flýta þeim fjárfestingum sem mest sem hægt er að flýta og ráðast í nýjar. En þær verða að vera fjölbreyttar og réttar og ég tek undir það með hæstv. ráðherra að þær þurfa helst að vera arðsamar einnig. Atvinnuleysið er að aukast hratt og eru að verða miklar breytingar á atvinnumarkaði. Því miður er það svo að í samfélaginu er hópur sem býr ekki við afkomuöryggi þegar eitthvað bjátar á. Samdrátturinn gæti jafnvel orðið meiri en menn ætla. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að í besta falli verði samdrátturinn sá sami og í fjármálakreppunni 2008–2009. Í besta falli.

Það kom fram á fundi fjárlaganefndar með Samtökum iðnaðarins að það eru lausafjárerfiðleikar hjá helmingi félagsmanna í samtökunum. Það verði erfitt hjá mörgum fyrirtækjum að greiða gjöld á gjalddaga á komandi vikum og mánuðum. Sá fjárfestingarpakki sem við ræðum í þessari þingsályktunartillögu er því ákaflega mikilvægur. Við getum svo deilt um það hvort hann sé nægilega öflugur. En við höfum rætt það innan fjárlaganefndar að nauðsynlegt væri að hækka þessa heildarupphæð og bæta við verkefnum. Ég vil þakka formanni fjárlaganefndar fyrir ð að vera opinn fyrir öllum tillögum í þeim efnum og sýna þar ríkan samstarfsvilja við okkur í minni hlutanum. Við Miðflokksmenn höfum lagt fram tillögur og svo aðrir flokkar í minni hlutanum og þær tillögur eru nú til skoðunar í nefndinni. Ég vænti þess og vona að menn sjái að þarna eru tillögur sem væri hægt að ráðast í og bæta inn í þennan fjárfestingarpakka. Við í Miðflokknum erum kannski ekki að tala um að það þurfi að bæta við tugum milljarða í þetta skiptið vegna þess að það koma væntanlega fleiri björgunarpakkar síðar á þessu ári. En það er hægt að bæta við einhverjum milljörðum í verkefni sem eru nú þegar tilbúin og gætu skipt miklu máli.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara sérstaklega yfir einstök verkefni í þessari þingsályktunartillögu, vil bara segja það að við í Miðflokknum styðjum þau heils hugar og leggjum áherslu á að þau komist sem fyrst til framkvæmda og nýtist þannig í því að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Við styðjum þessar tillögur heils hugar og vonumst til þess að það sé hlustað á tillögur okkar að sama skapi og við erum tilbúin í allt samstarf í þeim efnum.

Ríkissjóður er sem betur fer vel í stakk búinn að mæta þessum áföllum eins og komið hefur fram og það gefur okkur svigrúm til að auka við fjárfestingar á vegum hins opinbera á flestum sviðum. Það er einfaldlega svo, herra forseti, að það er samfélagslegt hlutverk ríkissjóðs að koma nú myndarlega inn í fordæmalausar aðstæður. Það kom einnig fram hjá Samtökum iðnaðarins að byggingarmarkaðurinn er nánast kominn í frost. Í þeim geira starfa um 16.000 manns. Hægt væri einnig að ráðast í íbúðafjárfestingar í gegnum svokölluð hlutdeildarlán. Þetta kom fram á fundinum. Það má einnig nefna það hér í tengslum við þessa umræðu að mikilvægt er að hvetja landsmenn til að skipta við innlenda þjónustuaðila og innlenda verslun og velja íslenskt. Þetta hefur allt mikið að segja. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að verja störfin. Það starfa um 43.000 manns í iðnaði, um 16.000 í byggingargeiranum, eins og ég nefndi, og um 17.000 í framleiðslu og 12.000 í hugverkaiðnaði. Þetta eru því gríðarlega fjölmennar stéttir sem við erum að ræða um og þessi átaksverkefni skipta þær verulegu máli. Það er gríðarlega mikilvægt að bregðast myndarlega við samdrættinum.

Samtök iðnaðarins lögðu það til á fundi fjárlaganefndar að hækka þennan fjárfestingarpakka um 30–35 milljarða kr. Þau nefndu einnig að svokallaðar girðingar í frestunarákvæðum stjórnvalda væru of háar. Það er eitthvað sem er nauðsynlegt að skoða. Ég hjó eftir því að ráðherra kallaði eftir því að sar tillögur væru raunhæfar. Ég tek undir það og hann vísaði jafnframt í að það væri verkefni nefndarinnar í þeim efnum að fara yfir þetta. Og ég ítreka bara það sem ég sagði áðan, herra forseti, að við erum öll boðin og búin í nefndinni og í minni hlutanum til að eiga samstarf, koma með tillögur og reyna að finna þau verkefni sem eru þegar tilbúin og hægt er að ráðast í. Það eru fjölmörg verkefni sem eru tilbúin, hönnun lokið o.s.frv., sem hægt er að ráðast í, sem eru ekki í þessum pakka. Við höfum lagt það fram á fundi nefndarinnar og ég vona svo sannarlega að það verði skoðað.

Ég vil varpa því fram að ég tel eðlilegt að Landsvirkjun komi að þessum fjárfestingarpakka með einhverjum hætti, öflugt fyrirtæki sem hefur dregið úr framkvæmdum síðustu árin. Það sama á við um veitufyrirtækin, það er nauðsynlegt að þau auki framkvæmdir sínar í ljósi þessa. Ég legg enn og aftur áherslu á að skuldastaða ríkissjóðs er góð. Hún er u.þ.b. 27% af vergri landsframleiðslu, minnir mig, í samanburði við að á Ítalíu er hún 130%, þannig að menn sjá að við erum í raun og veru í öfundsverðri aðstöðu til að takast á við þær fordæmalausu aðstæður sem blasa við í samfélaginu. Þá eigum við að nýta okkur það svigrúm sem við höfum með því að koma myndarlega inn með fjárfestingar hins opinbera til að lágmarka tjónið. Þess vegna tel ég, herra forseti, að það sé vel hægt að bæta í þennan pakka. Og enn og aftur ítreka ég að Miðflokkurinn er svo sannarlega tilbúinn til að koma með alla þá vinnu sem þarf tilað það verði að veruleika.