151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[03:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við viljum öll stöðva þessa veiru og viljum fella niður samfélagslegar takmarkanir innan lands svo að við getum farið að lifa eðlilegu lífi. Það liggur fyrir. Ástandið vegna þessa faraldurs hefur varað lengi og þjóðin verður sífellt þreyttari og pirraðri á lokunum og opnunum til skiptis og skaðinn af þessum rússíbana verður sífellt meiri. Það er mikilvægt að fylgja ráðum vísindamanna og faglegri ráðgjöf en standa á sama tíma vörð um samstöðu þjóðar. Það hefur verið leiðarstef okkar í Viðreisn að faglega ráðgjöfin ráði för.

Markmið ríkisstjórnarinnar með frumvarpinu sem við ræðum hér er að skjóta lagastoð undir vistun fólks á sóttkvíarhóteli, sömu vistun og var úrskurðuð ólögmæt fyrir tæpum þremur vikum. Tilgangurinn er auðvitað að fækka þeim smitum sem berast inn í landið frá landamærunum og lækka þannig nýgengi smita. Einnig er í frumvarpinu ákvæði til að stöðva för ferðamanna frá skilgreindum hááhættusvæðum þegar þeir hafa engin tengsl við landið og teljast vera í ónauðsynlegri för. Spurningin sem þarf að svara er hvort þetta tiltekna frumvarp sé rétta leiðin til að ná þessu markmiði. Aðrar spurningar sem við glímum við hér varða það hlutverk okkar að bregðast við stöðunni og verja líf og heilsu fólks án þess að ganga of langt gagnvart öðrum grundvallarmannréttindum.

Það er jákvætt, reyndar lykilatriði, mögulega úrslitaatriði hér að mínu mati, að ríkisstjórnin leggur þetta frumvarp fram sem bráðabirgðaákvæði. Hún gerir ráð fyrir heildarendurskoðun sóttvarnalaga eftir að heimsfaraldur er að baki. Það er rétt framkvæmd að mínu mati að stoppa í götin núna með tímabundnum bótum á meðan við stöndum í auga stormsins og vinna svo saman að langtímalausn með vandaðri yfirferð, sem er ekki beinlínis yfirheitið á því ferli sem hefur átt sér stað hér. Þetta er gríðarlega mikilvægt og það er ákveðin lagaleg jafnvægislist að verja þessa grundvallarhagsmuni án þess að ganga of langt á önnur grundvallarréttindi. Og það skiptir máli að sá samfélagssáttmáli sem við höfum sett okkur, um vald og valdmörk, sé virtur. Um það snerist dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem ráðherra var talinn hafa farið út fyrir þær heimildir sem löggjafinn mælti fyrir um.

Nú liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn vill koma þessum breytingum í gegn á miklum hraða. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í ræðu við flutning málsins hér fyrr í dag — spurð hvers vegna þinginu væri gert að fá kynningu á þessu máli og taka til þess afstöðu á einum sólarhring eftir að ríkisstjórnin hefði tekið sér tvær vikur frá því að úrskurður héraðsdóms um lagastoð sóttkvíarhótelsins lá fyrir — að það hefði tekið langan tíma að meta hvort stjórnvöld teldu þörf á því að veita heimild til þessa úrræðis í lögum.

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það ekki sterk skýring á þessum mikla flýti. Fljótfærni við lagasetningu eykur eðlilega hættu á mistökum og það hefði mátt vera ríkisstjórninni lexía að hafa fengið dóm um ólögmæti aðgerða sinna. Ríkisstjórnin hefur einfaldlega reynt á eigin skinni hverjar afleiðingarnar eru ef menn flýta sér um of. En þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir og við þurfum að taka afstöðu til málsins út frá henni. Þá er það að segja að ráðherra og ríkisstjórnin hafa ekki beinlínis verið sannfærandi um væntanlegan árangur af þessari aðgerð. Það má alveg leiða að því líkur að áhrifin verði minni en ríkisstjórnin vonast eftir. Þýðir það að málið sé slæmt? Nei. Þýðir það að málið leiði til stöðu sem verður verri en núverandi staða? Nei, það þarf ekki heldur að þýða það. En það gæti þýtt að við hefðum náð betri árangri með því að vanda betur til verka.

Velferðarnefnd fékk til sín fjölda gesta, eins og komið hefur fram í öðrum ræðum, þar sem vel var farið yfir málin, og ég sakna þess í áliti 1. minni hluta, sem er þá nefndarálitið sem verið er að vinna með — þetta er svolítið flókin staða, en svona er þetta — að meira sé gert úr því sem þeir gestir höfðu fram að færa. Mig langar t.d. að nefna að hér er, af hálfu ríkisstjórnarinnar, verið að leggja til endurskilgreiningu á því áhættumati sem alþjóðleg samstaða hefur ríkt um. Læknafélag Íslands skilaði inn umsögn og gerir alvarlega athugasemd við nýju skilgreininguna. Í staðinn fyrir að nota evrópskt mat leggur ríkisstjórnin til séríslenskt litakóðunarkerfi sem fækkar verulega þeim farþegum sem reglurnar taka til. Í máli læknateymisins sem mætti fyrir nefndina, og gaf leyfi til þess að til orða þess yrði vitnað, kom fram að teymið hefði viljað hafa aðkomu að skilgreiningu á áhættumati, á hættusvæðum.

Heilt yfir hefði ég viljað að tekin yrði dýpri umræða um nákvæmlega þetta mál, annars vegar um væntingar sem fólgnar eru í því að fara þessa leið og hins vegar mögulega áhættu, þ.e. jákvæðar og neikvæðar afleiðingar af þessu. Hvað getur þetta mögulega þýtt? Ég veit að væntingarnar eru þær að bólusetningaráhrif séu orðin nógu mikil til að okkur sé einfaldlega stætt á því að taka þessa áhættu. Það getur vel verið að það gangi upp og ég óska þess innilega en það hefði verið gott að fá dýpri umræðu um þetta. Og aftur situr eftir þessi spurning: Af hverju þurfti að flýta málinu svona mikið í stað þess að vinna það þannig að við hefðum góða sannfæringu fyrir þessari breytingu?

Það eru svo sem fleiri ástæður sem komu fram í umfjölluninni til að ræða þetta mál meira á dýptina og lengur en nú yfir blánóttina. Gerðar voru athugasemdir sem vissulega var tekið tillit til í breytingartillögum 1. minni hluta þar sem læknarnir bentu á að fleira þyrfti að koma til skoðunar en eingöngu nýgengi smita í brottfararríki, t.d. alvarleiki veirunnar eða mismunandi afbrigði hennar. Við þekkjum einfaldlega ekki nægilega vel hver áhrifin verða en þau eru mismunandi. Brugðist hefur verið við þessu í breytingartillögu þar sem kemur fram að við skilgreiningu á hááhættusvæði sé m.a. heimilt að líta til forsendna um nýgengi smita á tilteknu svæði og til útbreiðslu mismunandi afbrigða kórónuveiru og sú breyting er vissulega til bóta. Svo eru aðrar breytingar hjá nefndinni, 1. minni hluta, sem eru almennar tillögur að breyttu orðalagi og fela ekki í sér efnislegar breytingar þannig séð.

Ég hefði líka viljað fá umræðu um mun á þessu máli og framkvæmdinni annars staðar á Norðurlöndum. Við fyrstu skoðun gengur tillaga hæstv. heilbrigðisráðherra lengra varðandi það hvar og í hvaða aðstæðum fólki er gert að einangra sig en gengur styttra hvað varðar tímalengd dvalar í sóttkví. Umræða um rökin með og á móti þessum mun hefði verið gott innlegg. Það er miður að hún skuli ekki eiga sér stað og ekki bara fyrir okkur sem vinnum þetta mál hér heldur fyrir almenning. Djúpt samtal eykur skýrleikann og fólk áttar sig þá betur á því af hverju verið er að ætlast til ákveðinna hluta, sem er ein af forsendum samstöðu.

Herra forseti. Svo að ég komi aftur að því sem eftir stendur í huga mínum og okkar í Viðreisn þá er þetta frumvarp ekki neikvætt. Það er ekki neikvætt í sjálfu sér, langt því frá, og markmiðið er sannarlega gott. Ég segi það með þeim fyrirvara að við höfum ekki fengið tíma til að ræða þær röksemdir og þau sjónarmið sem lágu að baki nægilega á dýptina og ekki fengið tækifæri til að bregðast við athugasemdum sem hafa komið fram í kvöld. Ég get alveg haft mínar efasemdir um að þessi vinnubrögð séu best til þess fallin að ná þeim árangri sem ríkisstjórnin vonaðist eftir. Ég er sannfærð um að dýpri umræða, með allt það úrval gesta sem velferðarnefnd fundaði með í fimm klukkutíma samfleytt, hefði bætt málið. Ég er algjörlega sannfærð um það.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Viðreisn hefur frá upphafi viljað verja samstöðuna. Við höfum nálgast það þannig og höfum lagt til að farið yrði að ráðum sérfræðinga í viðureigninni við heimsfaraldur. Þar hefur skýrleiki aðgerða gríðarlega þýðingu og að fólk sé ekki eingöngu meðvitað um markmiðið heldur meðvitað um það hvers vegna tilteknar aðgerðir og aðferðir eru lagðar til en aðrar ekki. Fram kom hjá sóttvarnalækni og teymi hans að í þessu væru jákvæðir hlutir, að þetta væri að þeirra mati skref í rétta átt. Burt séð frá pólitískum ágreiningi um tiltekin mikilvæg atriði og burt séð frá réttmætri gagnrýni á vinnulagið er það afstaða okkar að hagsmunum samfélagsins sé betur borgið með því að við leitum áfram eftir sátt og samstöðu og að við tryggjum eins og kostur er að við öll, samfélagið, séum í þessu saman og að við höfum úthald í það sem við vonum öll að sé lokaspretturinn í þessari baráttu. Ég ætla að hlýða á þær ræður sem eftir eru vegna þess að ég get einfaldlega ekki gert upp hug minn um endanlega afstöðu mína í þessu máli, þar togast á ákveðnir hlutir. Ég ætla bara að vona að sá ræðuskörungur stígi hér í pontu sem nái að sannfæra mig. En til vara ætla ég að kafa aðeins betur ofan í fundargerð mína frá maraþonfundi velferðarnefndar fyrr í kvöld.