151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[04:08]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum hér loksins með ríkisstjórnarfrumvarpið í höndunum sem skyldar ferðamenn sem koma frá eða hafa dvalið á svæði þar sem nýgengi smita er töluvert hátt, eins og segir í texta frumvarpsins, til að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Það kemur fram eftir að þingflokkur Samfylkingarinnar boðaði að við værum tilbúin með frumvarp til að skjóta lagaheimild undir það að skikka ferðafólk í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Lagasetningin nú er mikilvæg og nauðsynleg en er því miður allt of sein og illa gerð þótt tilefnið sé mikið. Ótal spurningum er ósvarað í frumvarpinu, eins og hvernig ferðamenn eiga að sýna fram á með fullnægjandi hætti að þeir muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum, eða varðandi fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda um að endurskilgreina áhættumat sem alþjóðleg samstaða ríkir um og er grundvöllur sóttvarnaaðgerða í Evrópu. Villandi háværar viðmiðunartölurnar um nýgengi í greinargerð frumvarps hæstv. heilbrigðisráðherra eru það gagnrýnisverðar að 1. minni hluti velferðarnefndar áréttar í breytingartillögu sinni að þær séu eingöngu til viðmiðunar.

Frú forseti. Það er öllum ljóst að fólkið í landinu hefur verið að kalla eftir hertari og skýrari aðgerðum á landamærunum. Á það höfum við í þingflokki Samfylkingarinnar hlustað og brugðist við. Þetta frumvarp er einhvers konar tilraun til að þóknast sjónarmiðum beggja megin á ásnum í stjórnarflokkunum frekar en að bregðast sannarlega við því ákalli með skýrum hætti. (LE: Heyr, heyr.)