152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[18:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið eða svarið við andsvari mínu. Hv. þingmaður talaði um að til væru ýmiss konar gagnagrunnar sem fólk setur upplýsingar í að eigin frumkvæði og það er auðvitað frábært. En tæknin býður okkur upp á umtalsvert meira þegar um er að ræða bæði utanumhald um gögn og líka ákveðna þjónustu. Auðvitað berum við ábyrgð á heilsu okkar, algjörlega, en að vera boðaður reglubundið í einhvers konar tékk skiptir auðvitað mjög miklu máli. Það er í raun alveg einstakt að Krabbameinsfélagið hafi haldið svona utan um þetta af því að þegar þessi reglubundna skimun fór af stað dró verulega úr tíðni brjóstakrabbameins. Það sem þarf auðvitað að gerast núna er að ristilkrabbamein sé tekið kröftuglegar inn og það er aðeins minnst á það í þessu máli, af því að það er krabbinn sem nú herjar á nútímamanninn og skiptir mjög miklu máli að við vöktum vel. En ég held að við getum haft þetta á miklu stærra sviði, í margs konar annars konar tegundum af heilsufarsvandræðum. Ég held að það myndi spara áþján og ég held það myndi hlífa fólki við sjúkleika. Það myndi líka spara okkur fjármuni að hafa þetta svolítið mikið miðlægt og rafrænt. Það er hægt.