Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[20:18]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu afar mikilvægt frumvarp sem ég styð heils hugar. Starfsemi umræddra vöggustofa hefur ítrekað hlotið neikvæða umfjöllun þar sem margir hafa talið að henni hafi verið verulega ábótavant. Því er afar mikilvægt að komast að því hvað raunverulega gerðist innan veggja vöggustofanna. Hvernig var starfseminni háttað? Var ofbeldi viðhaft? Voru börn vanrækt og hvaða áhrif höfðu vöggustofur á þau börn sem þar voru til frambúðar? Margt bendir til þess að óviðunandi meðferð barna hafi þrifist á vöggustofum. Stofurnar eru taldar hafa brugðist þeim börnum sem þær báru ábyrgð á. Það er afar mikilvægt að komast að sannleikanum, því ef satt reynist þá er hér um grafalvarlegt mál að ræða, mál sem hefur eftirmála alveg til dagsins í dag. Það hafði áhrif á þá fullorðnu einstaklinga sem voru börn á vöggustofum, aðstandendur þeirra og fleiri. Það er mikilvægt að við tökum mark á og viðurkennum upplifun þeirra sem voru á vöggustofunum og komumst að því hvernig og hvaða áhrif það hefur haft til lengri tíma.

Hópurinn Réttlæti hefur lengi barist fyrir því að starfsemi vöggustofanna verði rannsökuð gaumgæfilega. Hópurinn segir í bréfi til Reykjavíkurborgar að það sé óumdeild staðreynd studd rannsóknum að starfsemi á vöggustofum borgarinnar hafi ekki boðið upp á annað en skaðlega og illa meðferð á öllum börnum sem þar voru vistuð. Slík rannsókn sem hér er um að ræða verður að vera ítarleg og brjóta málið til mergjar. Hún þarf að geta svarað spurningum okkar á fullnægjandi hátt.

Hvers vegna voru börn vistuð á vöggustofum? Hvernig var meðferð þeirra háttað? Ef meðferð hefur verið eins og margt bendir til, hvernig getur verið að hún hafi verið við lýði allan þennan tíma eða í allt að 24 ár? Hverjar eru afleiðingar af veru í vöggustofu? Það er mikilvægt að fá fram sjónarmið þeirra sem upplifðu aðstæður barna á vöggustofum og eru til frásagnar um þær, m.a. starfsfólk og aðstandendur barnanna.

Virðulegi forseti. Hvað gerum við þegar margt bendir til þess að liðnir atburðir hafi ekki verið með þeim hætti sem við sættum okkur við? Jú, við greinum og lærum af þeim atburðum. Við nýtum reynsluna og komum í veg fyrir að slíkir atburðir komi nokkurn tímann fyrir. Í þessu samhengi hugsa ég til setningarinnar sem upprunalega kemur frá heimspekingnum George Santayana: Þeir sem læra ekki söguna neyðast til að endurtaka hana. Ég vil því hvetja þingheim til að samþykkja frumvarpið hið snarasta og Reykjavíkurborg til að koma nefnd á laggirnar sem vinnur faglegt, hlutlaust og ítarlegt mat. Í kjölfarið eigum við að vita sannleikann og geta lært af sögunni eins og okkur ber að gera.