Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

þróunarsamvinna.

492. mál
[18:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Þróunarsamvinna er lykilþáttur í utanríkisstefnu Íslands. Þungt vegur að ríkisstjórnin hefur gert heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að sínum, þau að hungri og sárafátækt verði útrýmt, dregið úr ójöfnuði innan lands og á milli ríkja, mannréttindi virt, öll séum við jöfn fyrir lögum og fáum að lifa við frið og öryggi í daglegu lífi. Að sjálfsögðu liggja alþjóðasamningar og skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist einnig til grundvallar þróunarsamvinnustefnunni. Sú sem hér stendur er undir sterkum áhrifum frá nýloknum fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York og einnig, svo að það komi fram, frá kvennaþingi sem meira en hundrað konur tóku þátt í um liðna helgi hér í Reykjavík. Að mínu áliti er það þrennt sem skiptir mestu máli þegar lagður er grunnur að árangursríkri þróunarsamvinnustefnu: Baráttan fyrir kvenfrelsi, réttindum barna og kynsegin fólks, í öðru lagi baráttan gegn hamfarahlýnun og fyrir líffræðilegum fjölbreytileika og í þriðja lagi baráttan fyrir friði og gegn hvers kyns ofbeldi, ekki síst kynbundnu ofbeldi. Nauðsynlegur árangur í þróunarsamvinnu og utanríkisstefnu og í rauninni allri stefnumótun ef út í það er farið, næst ekki nema þessi þrjú lykilviðfangsefni séu samofin í stefnumótun okkar og þróunarsamvinnu til stutts og langs tíma. Þetta snýst um mannréttindi, um umhverfi og öryggi og, frú forseti, eins og ég held að við öll vitum í þessum sal, þá hefur reynslan sýnt og það segir sig auðvitað sjálft að án fullrar lýðræðislegrar þátttöku kvenna í öllum samfélögum nást engar framfarir.

Við þurfum líka, frú forseti, að taka ítarlegt samtal um það með hvaða hætti sé best að ná markmiðum okkar í þróunarsamvinnustefnunni og þá er ég að vísa í framkvæmd stefnunnar. Á hún að vera tvíhliða? Á hún að vera í fjölhliða samstarfi, t.d. við stofnanir Sameinuðu þjóðanna? Með hvaða hætti nýtum við kosti þess að fela frjálsum félagasamtökum framkvæmd stefnunnar? Ég held að framkvæmdin sé oft best komin í höndum félagasamtaka. Þau hafa áratugareynslu, fagfólk á sínum snærum og eru í daglegu nánu samstarfi við heimafólk á hverjum stað. Þannig nýtast oft fjárframlögin best og það verður mjög mikið úr hverri íslenskri krónu.

Spurningar mínar eru einfaldar: Hvað líður mótun þróunarsamvinnustefnu sem á að taka gildi á næsta ári, 2024, og vera til fimm ára, ef ég man rétt, og hver verða helstu áhersluatriði hennar? Með öðrum orðum: Er von á einhverjum áherslubreytingum?