Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

þróunarsamvinna.

492. mál
[18:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er rétt að byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin og ég treysti því, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að áfram verði haft mjög náið samráð við þróunarsamvinnunefnd og hún höfð með í ráðum, eins og lög gera ráð fyrir, um þróun stefnunnar, vinnuna að henni og hvernig hún verður lögð fram í haust. Ég heyri það á svari hæstv. ráðherra að það eru kannski ekki byltingarkenndar breytingar á áherslum en það skiptir auðvitað mjög miklu máli nákvæmlega hvernig við, stjórnvöld, og Ísland framfylgir sinni þróunarsamvinnustefnu. Það er auðvitað rétt sem hæstv. ráðherra bendir á að við erum stödd þar á ofanverðri 21. öld að við sjáum að kerfin okkar ráða ekki við krísurnar sem við erum að eiga við. Það er loftslagskrísan og það er auðvitað að verða hrikaleg þróun í því að sárafátækt er að aukast og við erum líka að eiga við bakslag í mannréttindabaráttu víða um heim. Allt þetta kemur saman. Það er gott að heyra að ráðherrann vilji leggja stóraukna áherslu á loftslagsmál, enda vorum við í dag að fá fréttir af lokaframlaginu í sjöttu skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna og þar segir einfaldlega: Tíminn er á þrotum. Hvað ætlið þið að gera í loftslagsmálunum? Þannig að ég vil líka hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir beinum fjárfestingum í atvinnuuppbyggingu í öðrum löndum. Það er líka hlutverk atvinnulífsins okkar að taka þátt í beinum fjárfestingum, loftslagsvænum fjárfestingum og leggja höfuðáherslu á þátttöku kvenna í öllu ferli og öllum verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur.