Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

fulltrúar í starfshópi um stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála.

177. mál
[18:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra skipaði starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála á Íslandi, gerði það fyrir nokkrum vikum síðan, jafnvel komnir mánuðir. Það sem vakti athygli mína var að Neytendasamtökin áttu ekki fulltrúa í þessum starfshópi og sér í lagi er ljóst að það virðist ekki hafa verið haft samráð við Neytendasamtökin, alla vega hafa þau ekki haft tækifæri, eins og fram hefur komið, til að koma með sín sjónarmið varðandi þennan starfshóp, hvað það á að vera skipuð í hann. Í því felst spurning mín.

Þegar við horfum á þessa flokka sem eru í ríkisstjórn þá sjáum við að bæði þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins koma ítrekað með skýrslubeiðnir sem eru bein atlaga að Samkeppniseftirlitinu. Samkeppniseftirlitið er ekkert yfir gagnrýni hafið og ég held að við ráðherra séum alveg sammála um það. En það er umhugsunarefni þegar þessir flokkar koma ítrekað með tillögur sem eiga að grafa undan Samkeppniseftirlitinu. Sjálfstæðisflokkurinn bað um skýrslu Ríkisendurskoðunar, fullur tortryggni. En niðurstaða Ríkisendurskoðunar var skýr, að Samkeppniseftirlitið hefði staðið undir þeirri ábyrgð sem felst í því hlutverki að vera með eftirlit með samkeppni í þágu neytenda og í þágu heilbrigðs viðskiptaumhverfis. Ég sé síðan að þingmenn Framsóknarflokksins flytja hér tillögur ítrekað sem fela í sér sniðgöngu við almenn samkeppnislög. Við hljótum að staldra við þegar ítrekað er verið að leggja fram tillögur um að það eigi ekki bara að viðhalda sérreglum fyrir landbúnaðinn eða aðra þætti, undanþágum frá samkeppnislögum, heldur að bæta í og gefa í þegar kemur að sérreglum, undanþágum frá samkeppnislögum. Mér finnst þess vegna umhugsunarefni að í starfshópnum eru m.a. fulltrúar Viðskiptaráðs sem hefur m.a. gagnrýnt sérstaklega, og ekkert að því, Samkeppniseftirlitið og vill að því verði breytt. Stundum hef ég á tilfinningunni að þetta sé gert til höfuðs forstjóranum sem hefur hvergi gefið eftir þegar kemur að eftirliti með samkeppnismálum og það eftirlit hefur skilað beint íslenskum neytendum milljörðum í ábata, m.a. þegar kemur að flutningsmálum, fjarskiptamálum o.s.frv.

Það veldur mér líka áhyggjum að fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins hafa vart haldið í við verðbólgu núna síðustu árin. Eftir situr þessi tilfinning, og ég vona að hæstv. ráðherra geti bara hent þeirri tilfinningu minni út í hafsauga, að það sé ekki verið að styðja við Samkeppniseftirlitið, (Forseti hringir.) það sé verið að fara ákveðna fjallabaksleið til að veikja og draga tennurnar úr samkeppnismálum með því að skoða stofnanaumgjörð neytenda og samkeppnismála, (Forseti hringir.) til að minnka vægi samkeppnismála en draga aðra hluti fram. En mér þætti gott ef hæstv. ráðherra færi yfir þetta.