Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

fulltrúar í starfshópi um stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála.

177. mál
[18:43]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa gagnlegu umræðu og þetta virka aðhald sem er hér stundað af hv. þingmönnum. Það er gríðarlega mikilvægt akkúrat á þessum tímum núna því þegar við sjáum að verðbólga er eins há og hún er þá getur það verið þannig að einhverjir mögulega noti ferðina. Þess vegna vil ég upplýsa hv. þingmann um það og ítreka að það er útilokað í mínum huga að grípa til einhverra aðgerða sem veikja samkeppniseftirlit í landinu í fyrsta lagi. Í öðru lagi vil ég líka upplýsa að við vorum og erum í talsverðu sambandi við Neytendasamtökin og upplýstum þau um hvernig við ætlum að gera þetta. Við vorum að skoða fyrst og síðast stofnanaumgjörðina en ekki í raun og veru neytendur sérstaklega hvað þetta varðar. Við höfum nýverið gengið frá samningi og ætlum að ganga frá frekari samningum við Neytendasamtökin til þess að styðja þau við að veita áframhaldandi aðhald á þessum markaði. Og það er alveg ljóst á þessum tímapunkti, þótt við vonumst auðvitað til þess að verðbólgan verði ekki eins þrálát og hún hefur verið, að þetta er stærsta viðfangsefni þessarar ríkisstjórnar um þessar mundir og allt aðhald með markaðnum, allar tillögur sem eru til þess fallnar að draga úr verðbólguþrýstingi og vinna á verðbólguvæntingum, er það sem skiptir íslenska hagkerfið mestu máli þessa dagana.