154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

Fíknisjúkdómurinn.

[16:04]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að eiga frumkvæði að þessari mikilvægu umræðu og jafnframt þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir ágæta yfirferð. Við erum hér að ræða um einn algengasta og alvarlegasta geðsjúkdóm samtímans og með tilkomu ópíóíðanna er þetta sá sjúkdómur sem veldur dauða flestra á aldrinum 15 ára til fertugs. Samkvæmt nýlegum rannsóknum íslenskra heilbrigðisyfirvalda eru u.þ.b. 22% líkur fyrir íslenska karla að verða fíklar einhvern tímann á ævinni og um 10% líkur hjá konum. Hér hefur sjónum ekki síst verið beint að þeirri þjónustu sem er veitt af hálfu SÁÁ. Eins og við vitum hefur SÁÁ lengi gegnt algjöru grundvallarhlutverki þegar kemur að því að aðstoða og hlúa að þeim sem glíma við fíknisjúkdóminn og aðstandendum þeirra og ég geri ráð fyrir að SÁÁ verði það áfram og þess vegna skiptir gríðarlegu máli og við þurfum að ræða það hér í þessum sal hvernig samningum og hvernig opinberum fjárveitingum til þessara samtaka er háttað.

Nú er staðan þannig, virðulegi forseti, að rekstrargrunnur samtakanna hefur verið verulega vanfjármagnaður um margra ára skeið. Hundruðum milljóna af sjálfsaflafé þeirra er varið í að greiða niður þjónustu sem er veitt samkvæmt þjónustusamningum við ríkið. Þessi fjárskortur kemur í veg fyrir að hægt sé að veita fólki með fíknisjúkdóm samfellda meðferð. Árlega deyja um 100 einstaklingar úr fíknisjúkdómi á Íslandi. Árið 2022 létust 12 sem höfðu óskað eftir innlögn áður en röðin kom að þeim og við fáum allt of oft fréttir (Forseti hringir.) af kornungu fólki sem deyr af völdum sjúkdómsins. Ábyrg stjórnvöld og ábyrgir stjórnmálamenn hljóta að forgangsraða fjármunum í þágu forvarna og meðferðarúrræða sem virka.