131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Kynferði og eignarhald í atvinnurekstri og landbúnaði.

[15:35]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. viðskiptaráðherra vilji beita jákvæðni og festu og aðhaldi í þessum efnum. Ég er mjög hrædd um að það dugi ekki vegna þess að reynslan segir okkur annað, reynslan í íslensku viðskipta- og atvinnulífi segir okkur annað. Það er komið að því að við verðum að horfast í augu við þá reynslu og stöðu kvenna, bæði sem stjórnendur fyrirtækja og í stjórnum fyrirtækja hér á landi, að þessi hlutföll eru einfaldlega gjörsamlega óviðunandi. Það getur verið að einhverjum finnist það önugt að leita atbeina stjórnmálamanna til að breyta þessu en ég er mjög hrædd um að þeim forráðamönnum sem nú ráða, þeim frammámönnum íslenskra fyrirtækja sem nú ráða ríkjum, sé hreinlega ekki treystandi til að breyta þessu. Við getum vonað að aðalfundirnir í ár breyti öllu saman og að allt verði með fínum glans, 40/60 að ári liðnu, en mjög fátt bendir til þess, frú forseti.