132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:49]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúna til að koma hér upp og greina hæstv. forseta frá því, undir fundarstjórn forseta, að það er alls ekki rétt sem fram kom í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar hér áðan, að hægt sé að afgreiða þann hlut sem snýr að vatnatilskipun Evrópusambandsins. Mér fannst þetta ansi ódýr málflutningur og algjör þvæla, ef ég má orða það þannig, með leyfi forseta, vegna þess að það var ákveðin matreiðsla í gangi af hálfu fulltrúa umhverfisráðuneytisins sem sagði okkur að þetta skaraðist í engu, en fulltrúi Umhverfisstofnunar var því ósammála. Þannig að umsögn Umhverfisstofnunar þar sem lagt er til að frumvarp um lögleiðingu vatnatilskipunar verði lagt fram um leið og frumvarp um vatnalög stendur.

Í öðru lagi verð ég að endurtaka það nú að við lögðum til og óskuðum eftir því að fulltrúi Náttúrufræðistofnunar kæmi einnig á fund nefndarinnar þar sem við vildum inna hann eftir hvort Náttúrufræðistofnun væri enn þeirrar skoðunar að það ætti að ræða þessi frumvörp samhliða. En við því var ekki orðið. Spurningin er því enn þá mjög svo lifandi í umræðunni og mjög mikilvægt að hún verði leidd til lykta. Mér þykir því svolítið sérkennilegt og mér finnst ekki nóg að fulltrúi umhverfisráðuneytisins komi og segi okkur að þetta skarist ekki af því að náttúruverndin verði fyrir utan í þessu frumvarpi. Ég verð að fá að sjá með eigin augum hvernig hægt er að aðskilja vatnsvernd og náttúruvernd. Það er eitthvað sem hefur ekki verið leitt til lykta og okkur hefur ekki verið sýnt hvernig það eigi að fara fram.

Síðan vil ég einnig nefna að hér hefur verið sagt að Lögmannafélagið sé sammála málinu og stjórnarliðar vitna ítrekað til umsagna Lögmannafélagsins máli sínu til stuðnings, þá finnst mér rétt að halda því til haga að langflestar aðrar umsóknir voru í andstöðu við málið. Þetta er eina umsögnin sem er svona jákvæð. Langflestar aðrar voru í andstöðu við málið. Þannig að það er ekki hægt að vísa til þessa og þá á pólitískum forsendum og hugsanlega með áhyggjur af framtíðarskipun þessara mála hér í landi. Það verður að halda því til haga að langflestar aðrar umsagnir voru í andstöðu við málið. (Forseti hringir.)