135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:25]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum Vinstri grænna fyrir að leggja þetta ágæta frumvarp fram. Ástæða er til að fagna öllu tilleggi inn í þau mikilvægu, flóknu og viðkvæmu mál sem staðan í efnahagsmálum er. Eitt er að greina stöðuna og greina hana rétt, hverjir eru orsakavaldar þeirrar dýfu sem við höfum tekið á sumum sviðum efnahagsmála, annað er hvaða lausnir við höfum út úr því, bæði til skamms tíma og til lengri tíma. Sumu af því sem hér er lagt til er með einum eða öðrum hætti verið að vinna að af ríkisstjórn og Seðlabanka.

Báðir forustumenn stjórnarflokkanna, hæstv. ráðherrar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde, hafa lýst því yfir að gjaldeyrisforðinn verði hækkaður og styrktur um leið og færi gefst til um verulegar fjárhæðir. Hæstv. forsætisráðherra hélt gagnmerka og mjög góða ræðu á aðalfundi Seðlabanka á dögunum sem ég held að hafi skipt heilmiklu máli. Hann fór með sínum yfirvegaða og hófstillta hætti vandlega yfir stöðu mála, greindi hana ágætlega og lagði þær línur sem hægt er að leggja opinberlega um það sem hægt er að gera. Margt af því sem unnið er að af hálfu ríkisvalds og þeirra undirstofnana sem með þessi mál fara, hvort sem það er Fjármálaeftirlitið eða Seðlabankinn, eru að sjálfsögðu hlutir sem ekki er greint frá fyrr en þeim er lokið, t.d. það hver staðan er hvað það varðar að afla aukins gjaldeyrisforða og ýmissa annarra hluta. Það er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði, það er mjög mikilvægt að umræðan um þetta sé yfirveguð og hófstillt. Ég held það megi hrósa hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa gengið fram af sérstakri yfirvegun og hófstillingu og talað ró í mannskapinn. Það gekk mikið sjokk yfir samfélagið og efnahagslífið, bæði dagana fyrir páska þegar gengi og markaðir féllu miklu hraðar og meira en almennt hafði verið gert ráð fyrir — við vitum, eins og fram hefur komið í umræðum í dag, að sérfræðingar okkar í efnahagsmálum, hvort sem er í greiningardeildum bankanna, Seðlabankans eða annars staðar í stjórnkerfinu, hafa lengi haldið því fram og sýnt fram á það með ýmsum rökum að gengið væri allt of hátt og mundi líklega lækka um 15–25% á þessu ári. Að sjálfsögðu voru greiningardeildir og aðrir sérfræðingar að vonast eftir því að það gerðist á töluvert lengri tíma, mundi dreifast á 6, 8, 10 eða 12 mánuði þannig að það kæmi öðruvísi fram. Nú hefur, sem betur fer, bæði gengið verið að styrkjast og markaðir að ganga upp á síðustu dögum og held ég að framganga forsætisráðherra eigi þar mikinn hlut að máli, að hann hafi með yfirvegun sinni og hófstillingu kallað fram ákveðna ró og skynsemi í markaðinn sem er mjög væntingabundinn og byggist mikið á sveiflum o.s.frv. Krónan fór niður fyrir 150 í vísitölu í gær og vonandi verður þróunin sú áfram. Eins hafa markaðir mjög verulega verið að jafna sig.

Það blasir við að okkar opna og skuldsetta hagkerfi er mjög viðkvæmt fyrir þeim þrengingum sem nú eru á erlendum mörkuðum og þegar erlendir markaðir lokuðust meira og minna fyrir bankana skall þetta mun harðar á okkur en mörg önnur lönd þó að við búum yfir margs konar styrkleika sem önnur ríki gera ekki, eins og skuldlausum ríkissjóði, sterkum bönkum og öflugum fjármálastofnunum sem áhættumat og álagspróf Fjármálaeftirlitsins hafa ítrekað sýnt að standi mjög vel, séu með dreifða áhættu og góða eiginfjárstöðu. Almennt standa bankarnir okkar mjög vel þó að sjálfsagt mál sé að gera allt sem hægt er að gera til að styrkja stöðu þeirra og koma í veg fyrir að þeir lendi í vanda og eins það að lausafjárvandi þeirra verði leystur ef hann kæmi upp.

En það sem hratt þessari atburðarás af stað, og hefur skapað ómælda erfiðleika á íslenskum fjármálamörkuðum, er alþjóðlega lánsfjárkreppan sem á upphaf sitt á bandarískum fjármálamörkuðum og skekur nú ýmsa banka um allan heim. Íslenskar fjármálastofnanir verða að greiða þetta mjög dýru verði vegna þess að einhverjir hafa hugsanlega hag af því ef illa fer fyrir íslenskum bönkum og íslensku hagkerfi — ég tek þó undir með 1. flutningsmanni frumvarpsins hvað það varðar að við megum ekki gleyma okkur í deilum um það hvað nákvæmlega veldur þrengingunum heldur þurfum við að greina ástæðurnar og hvaða leiðir við höfum út úr vandanum.

Undanfarin fjögur ár hefur hagvöxtur á Íslandi ekki verið í miklu samræmi við afkastagetu hagkerfisins og vöxtur í bæði neyslu og fjárfestingu hefur verið langt umfram tekjuöflun sem hefur leitt til mjög mikillar skuldasöfnunar og tölurnar eru mjög háar í því samhengi. Hreinar skuldir þjóðarbúsins hafa aukist um 195% á þremur árum, frá 2004–2007. Í upphafi síðasta kjörtímabils var hrein skuldlaus staða 93% af vergri landsframleiðslu en er núna 246%. Þetta eru gífurlegar tölur og sú skuldsetta þensla sem var á síðustu árum skýrir mjög hve viðkvæmt hagkerfið okkar er fyrir þrengingum á alþjóðamörkuðum og hve harkalega þær bitnuðu á okkur á þeim vikum og mánuðum sem lausafjárkreppan hefur staðið á alþjóðlegum mörkuðum.

Auðvitað er aukin skuldsetning erlendis ekki alvond, í mörgum tilfellum á hún rætur sínar að rekja til þess að íslensk fyrirtæki hafa verið að taka lán og fjárfesta í arðvænlegum atvinnurekstri. Miklar eignir eru líka á bak við þessa skuldsetningu. Mörg íslensk fyrirtæki hafa gerst mjög virkir þátttakendur í hagkerfi erlendis þó svo það blasi við að mörg þeirra hafa farið býsna geyst og mun það sjálfsagt taka þau einhver missiri að jafna sig á því. Af þeim orsökum er íslenska hagkerfið sérstaklega viðkvæmt fyrir þeim miklu umskiptum sem hafa orðið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum frá því seinni partinn í fyrra. Það er komið að því að ná jafnvægi aftur í hagkerfið eftir þessa gríðarlegu lánadrifnu þenslu sem hefur staðið í mörg ár. Við þurfum að borga reikninginn og jafna ástandið aftur. Það er hægt að gera fjöldamargt til að vinna sig út úr ástandinu eins og það er núna. Þar skiptir miklu máli að eiga yfirvegaðar og djúpar samræður um þau mál eins og þær sem fram fara hér í þinginu í dag. Þess vegna þakkaði ég þingflokki Vinstri grænna sérstaklega fyrir að leggja þetta prýðilega mál fram. Það eru margar góðar tillögur í þessu máli, verið er að vinna að og skoða sumar þeirra, aðrar eru gott innlegg í frekari umræðu í framtíðinni.

Það sem forustumenn ríkisstjórnarinnar og Seðlabankinn hafa verið að gera — og er þvert gegn því tali að ríkisstjórnin hafi setið hjá og ekki gripið til aðgerða — er að vinna hörðum höndum að því að bregðast við ástandinu og vinna efnahagskerfið eins hratt út úr því og hugsast getur. Við höfum sent mjög skýr skilaboð um það að hvers konar áhlaupi á fjármálakerfið verði hrundið. Við ætlum að verja efnahagskerfið með ráðum og dáð, t.d. með vaxtahækkunum og öðrum slíkum aðgerðum, þó að það taki í. Það kann að fela í sér, og mun sjálfsagt fela í sér, lántöku af hálfu ríkissjóðs til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans eins og almennt er rætt um núna og ýmislegt sem því er tengt. En staða bankanna er sterk og ríkisstjórn og Seðlabanki hafa næg úrræði til að hrinda þeim erfiðleikum sem sækja nú á kerfið og birtast t.d. út af snörpu gengisfalli krónunnar í verðbólguskoti sem við getum hins vegar gert ýmislegt til að vinna gegn.

Í fyrradag hélt ég í viðskiptaráðuneytinu ágætan fund með forustumönnum Alþýðusambandsins, Neytendasamtaka og Neytendastofu um aðgerðir til að freista þess að fá alla þá sem með málið hafa að gera til að sitja af sér þetta tímabil í efnahagsmálum sem er vonandi og örugglega tímabundið — að hleypa ekki óþarfa hækkunum út í verðlagið og keyra þannig af stað verðbólguþróun sem ekki sér fyrir endann á og situr eftir hjá almenningi með mjög neikvæðum hætti. Við þurfum að gera allt sem við getum til að verja heimilin og fjölskyldurnar í landinu, koma í veg fyrir að verðhækkanir og verðbólguhækkun bresti á og skelli á almenningi. Þar getum við gert ýmislegt, t.d. að blása til samstöðu um það að menn fari þá leið sem farin var með ágætum árangri árið 2001, að sitja af sér verðhækkanir eins og kostur er. Á morgun mun ég eiga fund með forustumönnum Samtaka verslunar og þjónustu og eftir helgina með framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og forustumönnum Alþýðusambandsins og BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og mun sá fundur verða haldinn á mánudaginn ef allir geta komið þá. Þá má sérstaklega geta þess að í þessu samhengi eru nýgerðir samningar á almennum markaði alveg sérstakt styrkleikamerki fyrir íslenskt efnahagslíf. En staða ríkissjóðs er góð og við höfum alla möguleika til að koma sterkari út úr ágjöfinni en við vorum áður. Við vissum alltaf að það kæmi að skuldadögum eftir skuldadrifna ofurþenslu síðustu ára, hverjum svo sem um er að kenna, ódýru lánsfjármagni á alþjóðamörkuðum og svo mörgu öðru heima og heiman. Það er engin spurning að svo er. Það er líka mikilvægt, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði, að eftir að jafnvægi er náð, sem hefur sýnt okkur fram á bæði veikleika og styrkleika íslenska efnahagskerfisins, fari fram vönduð úttekt á því hvernig til hefur tekist með peningastefnuna og hvað má gera til að styrkja stoðir hennar enn frekar.

Eitt af því sem upp úr umræðunni stendur og allir eru sammála um, hvort sem það er hv. formaður Framsóknar, Vinstri grænna eða forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, er að það er mikilvægt að Seðlabankinn sýni fram á að hann geti aðstoðað bankana ef þeir lenda í lausafjárvanda, ekki til að veita þeim ókeypis fjármagn, auðvitað væri um að ræða fjármagn sem bankarnir mundu greiða til baka með vöxtum. Það er fyrst og fremst verið að verja fjármálakerfið, koma í veg fyrir að það fari á hliðina, til að verja heimilin í landinu. En aðallega er um að ræða öryggisnet sem fullvissar lánveitendur um að bankarnir geti með aðstoð Seðlabankans staðið við skuldbindingar sínar þó að þeir lendi í lausafjárvanda. Við erum einkum að styrkja gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir að nokkurn tíma þurfi að nota neitt úr honum. Hann er til þess styrktur að Seðlabankinn verði sannfærandi bakhjarl bankanna. Þess vegna tala menn um að auka þurfi gjaldeyrisforðann verulega, hvort sem það er um 80 milljarða eða verulega hærri fjárhæðir, það kemur bara í ljós en Seðlabankinn hefur með það verkefni að gera. Stóra málið er að tryggja að Seðlabankinn hafi getu og heimildir til að hlaupa undir bagga með bönkunum ef þeir lenda í lausafjárvanda og geta ekki staðið við skammtímaskuldbindingar.

Bankakreppur hafa hrikalegar afleiðingar fyrir efnahagslífið allt og það snertir alla. Því er að sjálfsögðu verið að leita leiða til að styrkja bakgrunn bankanna til að koma í veg fyrir að fólkið í landinu lendi í erfiðleikum. Að sjálfsögðu hangir þetta allt saman og fullkomlega útilokað að skilja þar á milli. Ef svo fer að fjármálastofnanir lenda í lausafjárkreppu þá er þessi aukni gjaldeyrisforðasjóður fyrir hendi til að bjarga þeim fyrir horn þó að ekki yrði um að ræða gjafir til bankanna heldur þyrftu þeir að sjálfsögðu að greiða fjárhæðina til baka með vöxtum eins og Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði, bendir t.d. á í prýðilegu viðtali í 24 stundum í dag þar sem hann greinir mikilvægi þess og ástæðuna fyrir því að verið er að tala um og leggja svona mikla áherslu á að efla gjaldeyrisforðann þvert yfir hið pólitíska litróf. Það er mikill munur á því að bankinn lendi í lausafjárvanda eða hann eigi á hættu að verða gjaldþrota.

Fjármálaeftirlitið, eins og ég nefndi áðan, hefur fylgst mjög náið með eiginfjárstöðu bankanna og ekkert bendir til þess, að mati þess, að neinn þeirra sé neitt nálægt því að lenda í verulegum erfiðleikum, það er svo langt frá því. Bankarnir geta hins vegar að sjálfsögðu lent í lausafjárvanda og átt í erfiðleikum með að greiða af skammtímaskuldum ef alþjóðlegir lánamarkaðir opnast ekki á einhverjum næstu mánuðum. Skuldatryggingaálagið, sem er að mati allra sem hafa tjáð sig um vandann og greint hann, algerlega úr öllu samhengi við það sem ætti að vera þar sem bankarnir standa sterkt. Staðan er þannig að álagið ætti að vera mjög lágt og það er sjálfsagt til marks um það sem sagt hefur verið, að spákaupmenn hafi gert áhlaup á fjármálakerfið og krónuna með því að keyra upp skuldatryggingaálagið til að loka lausafjármörkuðum fyrir bönkunum þannig að kerfið gefi eftir. En það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn eru að gera núna, það er að koma í veg fyrir að kerfið gefi eftir og að þeir sem eru að bíða eftir því gefist upp.