135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:50]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kom til að ræða um lokafjárlög, en eins og virðulegur forseti veit þá féll það niður og kom þá til umræðu …. (Gripið fram í.) Hvað segirðu, hv. þingmaður? (VS: Eru það einhver tíðindi að hv. þingmaður komi í þingið?) Nei, það eru engin tíðindi. Ég bið þig að bara viðhafa kurteisi hér. Virðulegur forseti. Það mætti minna þingmenn á það.

Hins vegar kom hér til umræðu ágætisfrumvarp Vinstri grænna um ráðstafanir í efnahagsmálum. Af hverju segi ég ágætisfrumvarp? Jú, út af því að Vinstri grænir hafa lagt sig greinilega fram hér um að fara í ákveðið stöðumat í efnahagsmálum og leggja til ákveðnar leiðir sem þeir leggja hér fram í frumvarpi. Frumvarpið er fyrst og fremst til þess að skapa umræðu eins og hér hefur verið á umliðnum klukkutímum um efnahagsmál og hagstjórn og ákveðnar aðgerðir því tengdar.

Nú má vel vera, virðulegur forseti, að ég verði lágstemmdur í þessari umræðu. Ég er nú gjarnan sagður vera það líkt og virðulegur forseti sjálfur. Við eigum það þá sameiginlegt. Ég ætla ekki að taka hér upp (Gripið fram í.) ummæli eins og hér hafa fallið um það að Samfylkingin þyki þegjandi meðvitundarlaus klessa eins og hv. frummælandi kom að né heldur eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði, að Kárahnjúkar væru umhverfisgjöf fyrir mannkynið, hvað þá að telja líkt og hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins að allir væru sofandi nema Framsóknarflokkurinn í þessum efnum eins og mátti skilja.

Fyrst og fremst er auðvitað um að ræða ákveðnar aðgerðir eins og hér hefur verið nefnt sem þegar er verið að skoða og um leið leggur þingflokkur Vinstri grænna fram með leiðarlínur af sinni hálfu og tekur undir þá umræðu sem hér hefur verið að það beri að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Mér sýnist svona almennt í umræðunni að samstaða sé um að það sé skoðað. Við höfum heyrt það í umræðunni á umliðnum dögum að hagfræðingar landsins hafa tekið undir það og það hefur einnig komið fram hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar.

Við héldum ágætisfund í fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd nú á mánudaginn með fjölmörgum sérfræðingum frá Seðlabanka, frá Fjármálaeftirliti, frá fjármálaráðuneyti, frá viðskiptabönkunum, frá ASÍ og frá Samtökum atvinnulífsins. Ég gat ekki annað skynjað en að einn af þeim hlutum sem lögð var áhersla á í þeirri umræðu væri einmitt þetta, að styrkja gjaldeyrisforðann, en ekki hvað síður að leggja áherslu á að Seðlabankinn styrkti samstarf sitt á meðal annarra seðlabanka til þess að um leið að efla og auka trúverðugleika og traust á íslensku hagkerfi.

Ég vil lítið fara út í þá umræðu sem hefur verið á umliðnum dögum og vikum sem að vísu hefur verið víkjandi kannski núna síðustu daga, varðandi það hverjir eiga sök á gengisfalli krónunnar. Það má vel vera að það mikla hrap sem krónan lenti í hafi verið uppsafnaður vandi. Margir töldu að krónan væri of sterk. Hún hefur verið of sterk gagnvart bandaríkjadal að margra mati en hins vegar má segja að ef við skoðum hlutina frá síðustu aldamótum að þá hefur hún verið víkjandi gagnvart evru.

Líka má nefna að í endurskoðaðri þjóðhagsspá sem kom út 15. janúar síðastliðinn greindu fulltrúar efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins frá því að ljóst væri að krónan mundi gefa eftir á næstu dögum og vikum og út árið, en líkt og hæstv. viðskiptaráðherra benti á í umræðunni þá mátti kannski ekki búast við því að það gerðist jafnhratt og raun bar vitni.

Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt að hugsanlega má segja að hagvaxtarskeiðið sem við erum búin að ganga í gegnum sé að nokkru leyti að koma í bakið á okkur því neyslan og fjárfestingarnar hafa ekki verið í samræmi við það sem hagkerfið hefur boðið okkur upp á. Skuldasöfnunin hefur þar af leiðandi verið hjá mjög mörgum hópum mun meiri en við hefðum viljað.

Það má kannski segja að í frjálsu hagkerfi eins og því sem við búum við, þar sem flutningur á fjármagni er ekki bundinn nema innan ákveðins regluverks, þá taki bæði einstaklingar og fyrirtæki þessar sjálfstæðu ákvarðanir. Þegar fjármagn fór að flæða á mörkuðum hér í kringum 2003–2004 þá jókst neyslan augljóslega eins og við sáum. Við þekkjum það í þeim efnum að þá munum við þurfa að taka stöðu á ný þegar slíkt hefur gerst. Það má kannski segja að verið sé að gera það nú um mundir.

En þá vaknar önnur spurning: Hvað er hægt að gera til þess að milda þau áhrif sem við höfum lent í, milda það sem við höfum farið í gegnum áður? Ég tek undir það sem kom fram í umræðu í gær um tímabundnar aðgerðir, um olíugjald og bensíngjald og slíkt og einnig það sem hér er nefnt í frumvarpinu og farið er inn á, að þá má styrkja ýmsa þætti sem tengjast sveitarfélögunum. Ég var mjög ánægður, virðulegi forseti, að heyra í gær að búið er að skrifa undir nýjan samstarfssáttmála milli sveitarfélaga og ríkis eða samgönguráðuneytis til þess að skoða breytingu á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í 4. gr. frumvarps þessa er til dæmis lagt til að styrkja stöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 5 milljarða kr. Nú hefur jöfnunarsjóðurinn til umráða á þessu ári 12 milljarða. Þetta yrði því veruleg styrking, 5 milljarðar. Hins vegar hefur jöfnunarsjóðurinn verið í endurskoðun. Nýlega var skilað skýrslu til samgönguráðherra vegna endurskoðunar sjóðsins og reiknilíkans. Reiknilíkan sjóðsins hefur verið gagnrýnt verulega af því, eins og menn gera sér grein fyrir, virðulegi forseti, að verið er að útdeila þessum 12 milljörðum eftir ákveðnum reglum og sveitarstjórnarmenn og íbúar almennt hafa gagnrýnt það hvert fjármunirnir fara því þeir deilast út til 79 sveitarfélaga. Ég á von á því að á sambandsþinginu á morgun verði þessi mál rædd af sveitarstjórnarmönnum. En ég tel að það þurfi að útfæra reiknilíkanið og það þurfi í sjálfu sér gagnvart tillögum nefndarinnar að taka upp nýtt reiknilíkan frá og með næstu áramótum. Það var þverpólitísk samstaða í nefnd sem endurskoðaði jöfnunarsjóðsreglurnar þannig að ég á von á því að við sjáum breytingar þar á.

Vissulega kemur líka ýmislegt á óvart í umræddri tillögu og það kannski helst að Vinstri grænir leggja hér til að vaxtatekjur verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti því það hefur kannski ekki verið hljómgrunnur fyrir því hjá Vinstri grænum að telja að fjármagnstekjur af vöxtum eigi að vera undanþegnar. Í þingskjali 351 við 2. umr. fjárlaga lögðu þeir það meðal annars til að skattur af fjármagnstekjum hækkaði úr 10% í 14% en að vísu að komið yrði á frítekjumarki í því sambandi. Nú má vel vera að hugmyndafræði þeirra byggi á því að þeir sem hafi þannig efnahagslegar ástæður að geta lagt 2 milljónir í sérstakan sparnað eigi að njóta þess í formi þess að greiða ekki skatta. En ég verð að segja það fyrir mitt leyti að ég hefði frekar viljað sjá meiri jöfnuð þarna og að við mundum ekki hafa þetta kerfi sem tilfærslukerfi eins og barnabætur og vaxtabætur eru, að það sé ekki þannig að þeir sem séu efnahagslega sterkir og geti lagt til jafnríkan sparnað og þarna er lagt upp með fái undanþeginn fjármagnstekjuskatt. Ég er hlynntari því sem þeir lögðu til á þingskjali 352 og hefur að vísu verið unnið að og er unnið að samning við ASÍ í samræmi við yfirlýsinguna frá 17. febrúar varðandi barnabætur og vaxtabætur. En þar ber kannski á milli okkar og það má vel vera að einhverjir þingmenn í mínum flokki muni vilja sjá sambærilega útfærslu og Vinstri grænir leggja hér til. Um er að ræða einfaldlega prinsippafstöðu mína gagnvart þessu. Ég tel að það eigi frekar að færa til fjármunina í gegnum annað.

Hér hefur verið minnst á ákveðin fjárfestingartækifæri. Það var einnig rætt um þau í efnahags- og skattanefndinni og fjárlaganefndinni og þá sérstaklega álver í Helguvík. Menn tókust þar á. Nú sýnir þjóðarspáin að gert sé ráð fyrir þó nokkuð meira atvinnuleysi á næstu mánuðum og árum. Spáin gengur öll út á það að atvinnuleysi muni aukast. Þar af leiðandi var ákveðin upplifun að sjá að þeir fulltrúar sem komu á fund nefndarinnar höfðu mjög ólíka sýn á uppbyggingu á álverum sem byggir á því að álverin eigi að auka útflutningstekjur og síðan munum við reyna að draga úr innflutningi þannig að við náum aftur ákveðnum stöðugleika og viðskiptahallinn fari niður og við getum náð verðbólgunni niður og allt það. Ég ætla ekki að fara yfir hagfræði. En minni á að þessi hagfræði er í sjálfu sér nokkuð gömul. Hún byggir á kaupauðgistefnunni sem Adam Smith að mig minnir fjallaði um einhvern tímann á tímum Loðvíks XIV en hún var þannig að einfaldlega átti að flytja meira út en inn. Síðan notaði Loðvík XIV að vísu muninn á útflutnings- og innflutningstekjum til að halda úti mjög öflugum her til þess að berja niður alþýðuna og halda völdum yfirstéttarinnar. En það er nú kannski ekki hugmyndin þarna.

En á þessum fundi — ef ég vík aftur að honum, virðulegi forseti — töldu nokkrir fulltrúar greiningardeildanna slæmt að setja inn þensluhvetjandi aðgerðir eins og álver og það rímar 8. gr. frumvarpsins hjá Vinstri grænum. En einnig tjáðu aðrir fulltrúar sig um það og töldu það mjög jákvætt. Það kom verulega á óvart að fulltrúi ASÍ — við vissum náttúrlega hvernig fulltrúi Samtaka atvinnulífsins talaði og hefur talað fyrir þessu — en fulltrúi ASÍ hins vegar talaði fyrir umræddum framkvæmdum. Hann mat það svo að það væri frekar kostur að halda uppi háu atvinnustigi en að draga úr jafnríku fjárfestingartækifæri og þarna hefur verið talað fyrir. Nú ætla ég ekkert að leggja dóma á þetta í þessari stuttu ræðu. Ég vil hins vegar segja að það skiptir verulegu máli að efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins leggi mat á þetta í endurskoðaðri þjóðhagsspá sem kemur út 15. apríl næstkomandi. Ég minni einnig á að forsvarsmenn Seðlabankans lögðu mat á umræddar hugmyndir um stækkun álversins í Straumsvík þann 29. mars fyrir ári, tveimur dögum fyrir álverskosninguna, þar sem þeir töldu að þau atriði sem lytu að stækkuninni væru ekki til hagsbóta fyrir efnahagslífið og hagkerfið. Þar af leiðandi tel ég einsýnt og hvet þar af leiðandi Seðlabankann til þess að leggja mat á það í útgáfu Peningamála sinna þann 10. apríl næstkomandi sem er nýr vaxtaákvörðunardagur, að menn myndi sér skoðanir á þessu. Þar munum við fá skoðanir tveggja aðila sem tengjast á ríkan hátt efnahagslífinu og hagkerfinu, annars vegar Seðlabankans og hins vegar efnahagsskrifstofunnar núna eftir nokkra daga því það er (Forseti hringir.) mjög mikilvægt, virðulegur forseti, að það heyrist frá þessum aðilum um þetta mikilvæga mál. (GÁ: Og ríkisstjórninni.)