135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[13:05]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og málefnalega ræðu. Ég get verið honum sammála um að það er mikilvægt að aðilar eins og Seðlabankinn og slíkir hafi skoðun á því hvort það sé til góðs, hvort það sé heppilegt við þær þensluaðstæður sem enn ríkja og ójafnvægi að hleypa stórframkvæmdum af stað en það er ekki bara nóg að hafa skoðun á því. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekki heppilegt, eins og Seðlabankinn hefur auðvitað ítrekað látið í skína, hvað ætla menn þá að gera? Er engu að síður staðreyndin sú að framkvæmdin t.d. í Helguvík sé að fara af stað upp á um 100 milljarða og rúmlega það sem nemur um 10% af vergri landsframleiðslu, eins og reyndar t.d. OECD lætur að liggja í sínu mati? Og þá kemur að spurningunni: Vilja stjórnvöld hafa í höndum tækifæri til að stýra þeim fjárfestingum?

Það væri líka fróðlegt að fara dýpra í umræðu sem hv. þingmaður nefndi um gamlar og nýjar kenningar, aftur til Adams Smiths, og hvort það var kaupauðgisstefnan sem þetta var kallað. Það rifjaðist þá upp fyrir mér að ágætur flokkur sem var til í stjórnmálasögunni hérna fyrir nokkru síðan mótaði sér einu sinni stefnu sem kölluð var útflutningsleiðin og gekk út á það að reyna að efla útflutningsstarfsemina og treysta þannig forsendur þjóðarbúskaparins. (GÁ: Hvaða flokkur var þetta?)

Það sem ég vil hins vegar nefna er svo hugmyndin sem hér er sett fram í 3. gr. um sérstök bundin sparnaðarskuldabréf. Það má að sjálfsögðu deila um ágæti svona fyrirkomulags en hugsunin er að örva almennan sparnað. Þess vegna eru þetta bundin bréf með ákveðnu þaki og það er ekkert langt frá því að vaxtatekjurnar af slíkum bréfum væru í nágrenni við það frítekjumark sem við höfum hvort sem er hugsað okkur að ætti að vera gagnvart fjármagnstekjum einmitt til að örva almennan sparnað. Í staðinn geti þá frekar þeir sem hafa umtalsverðar fjármagnstekjur borgað aðeins meira. Það finnst okkur sanngjörn hugmyndafræði og ég vænti (Forseti hringir.) þess nú frekar að ágætur jafnaðarmaður úr Hafnarfirði sé okkur sammála um það.