136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

umferðaröryggismál.

[10:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og held að líka sé mikilvægt að skýrt komi fram að hér hafa ekki verið teknar ákvarðanir um að hætta við allan umferðaráróður eða áróður gegn umferðarslysum. Það er mjög mikilvægt og ég treysti hæstv. ráðherra til að vinna vel úr þessum málum.

Það er líka rétt sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra að máli skiptir hvernig forstöðumenn stofnana ræða um þessa hluti því að engin ástæða er til að búa til óþarfa áhyggjur. Hins vegar er þetta mál þess eðlis að mjög mikilvægt er að við ræðum það hér því að umræðan er þörf. Umferðarslys eru afskaplega mikill skaðvaldur í íslensku samfélagi, ljóst er að við þurfum að standa okkur betur þegar kemur að umferðaröryggismálum varðandi hönnun mannvirkja og hvernig við byggjum okkur upp á samgöngusviðinu. Ég treysti því að hæstv. ráðherra fylgi því eftir.