136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

273. mál
[16:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég er sammála henni, auðvitað verður þetta að vera raunhæft og eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er markmiðið með þessu ekki að gera þetta að virkum hluta kosningakerfisins heldur að hafa þarna neyðarhemil og aðhald sem hv. þingmaður nefnir.

Ég held að í nefnd verði gríðarlega áhugaverð umræða um lýðræðismál og um aðkomu borgaranna. Ég fagna því enn og aftur að þetta mál hafi komið fram og ég fagna því líka að í þingsalnum er góð umræða um þetta og ég held að það sé upphafið að góðri samræðu millum okkar alþingismanna um lýðræðismál. Lýðræðismálin eru auðvitað grundvallarmál og ég held að við getum flest verið sammála um það að núna þurfum við að fara að taka skref fram á við og ný skref í þeim efnum.