138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:57]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við förum hér vítt og breitt um sviðið, enda tilefni til.

Hv. þingmaður spyr út í hugmyndafræði og þar af leiðandi spyr hann líka út í kennarastarfið, hvað mér finnist um það að karlmenn sækist í æ minna mæli eftir því starfi. Mér þykir mjög miður að karlmenn sækist ekki eftir þessu starfi, en ég held að aðrir þættir liggi þar að baki sem við getum skoðað, m.a. hvernig við menntum kennara á Íslandi. Við menntum þá bara í einum ríkisreknum skóla. Það mætti til dæmis vera fjölbreyttara framboð á kennaramenntun.

Ef fleiri tegundir væru af rekstrarformum skóla, t.d. fleiri einkareknir skólar, þá væri meiri samkeppni um fólk og samkeppni um laun og fólk fengi laun í krafti ágætis síns og fyrir framlag sitt og þá væri þetta kannski eftirsóknarverðari vinna. Það sama á við um heilbrigðiskerfið, en þar erum við jafnframt með miklar kvennastéttir.

Ég tel að meiri einkarekstur í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu mundi breyta þessari stöðu. En hvað hafa menn gert hér á þingi? Menn standa algjörlega í vegi fyrir því að einkaframtakið fái að njóta sín hér á Íslandi. Hvernig kynjahlutföllin eru í þessum geirum er bara ein afleiðing þess.

Maður þorir varla að nefna ártalið 2007, það er orðið hálfgert skammaryrði hér á þingi. (Gripið fram í: Í samfélaginu líka.) Í samfélaginu, já, kallar hér hv. þingmaður. Ég næ varla að svara þessu hér, en varðandi fæðingarorlofið, þá er ég mjög fylgjandi þessari löggjöf, enda voru það sjálfstæðar konur sem komu fyrst fram með þá hugmynd og ég er mjög fylgjandi því fyrirkomulagi sem er núna að það er valfrelsi, konan hefur þrjá mánuði, karlmaðurinn hefur þrjá og þau geta skipt þremur á milli sín. Fullkomin sanngirni.