139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér landskjörstjórn sem er þarft verk, enda um að ræða mjög mikilvægan þátt í framkvæmd lýðræðis á Íslandi. Þegar kosið var í landskjörstjórn á mánudaginn kom ég hér upp og gagnrýndi kosninguna á þeim forsendum að valdi kjörstjórna gæti verið og hefði verið misbeitt í pólitískum tilgangi. Ég varð fyrir harðri gagnrýni af hálfu eins þingmanns vegna ummæla minna þar sem við í Hreyfingunni vorum m.a. sökuð um að grafa undan Alþingi og lýðræðislegum stofnunum samfélagsins.

Sú gagnrýni var óverðskulduð en átti rætur sínar að hluta í því að viðkomandi þingmaður þekkti ekki þá málavöxtu sem ég vísaði til. Ég hafði tækifæri til að útskýra málavöxtuna fyrir hv. þingmanni og fleirum eftir lok umræðunnar og mun núna útskýra þær fyrir þinginu öllu.

Frú forseti. Fyrir kosningarnar vorið 2009 var reynt með mjög sérkennilegum ákvörðunum að koma í veg fyrir framboð Borgarahreyfingarinnar af yfirkjörstjórnum í tveimur kjördæmum. Þrátt fyrir að aðrar yfirkjörstjórnir í landinu hefðu engar athugasemdir gert, þrátt fyrir að dómsmálaráðuneytið hefði staðfest að við færum í einu og öllu eftir reglum og þrátt fyrir að á fundum okkar og lögfræðinga okkar með viðkomandi yfirkjörstjórnum þar sem öll rök yfirkjörstjórnanna voru hrakin héldu þessar tvær yfirkjörstjórnir fast við sitt. Með mikilli vinnu fjölmargra sjálfboðaliða tókst að koma framboðslistunum á kortið aftur fyrir kosningarnar en það gefur augaleið að svona fyrirkomulag gengur ekki.

Frú forseti. Það er ekkert sem tryggir að kjörstjórnir með pólitískt kjörnum meiri hlutum muni ekki gæta hagsmuna þess pólitíska meiri hluta ef með þarf. Þess vegna er einkennilegt, svo ekki sé meira sagt, að í stað pólitísks meiri hluta sé ekki einfaldlega einn fulltrúi frá hverju því stjórnmálaafli sem á sæti á Alþingi í landskjörstjórn hverju sinni kjósi menn að fara þá leið að Alþingi velji í kjörstjórnir.

Í öðru lagi, og eðli málsins samkvæmt, er mörgum þeim sem sitja fyrir í stólunum hér á Alþingi ekki vel við samkeppnina sem stafar af nýjum framboðum og það er mjög óeðlilegt að ný framboð skuli ekki fá sæti við borðið í yfirkjörstjórnum hvers kjördæmis og einnig í (Forseti hringir.) landskjörstjórn sé boðið fram á landsvísu fyrir hverjar kosningar.

Frú forseti. Tortryggilegar kjörstjórnir eru einhver versti (Forseti hringir.) óvinur lýðræðisins sem um getur og ég skora á Alþingi að leggjast á eitt og reyna að finna betri lausn á þessum málum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)