139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

þingsályktunartillaga um skipun stjórnlagaráðs.

[15:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vildi einmitt byrja á því að undirstrika að það er sá forseti sem er í forsetastóli hverju sinni sem fer með forsetavaldið í þingsal á þingfundi. Að auki er það þannig að þegar forseti Alþingis hefur fallist á að taka tiltekið þingmál á dagskrá, og það var rætt fyrir nokkrum dögum, verður að líta svo á að forseti telji að málið sé tækt til að koma fyrir þing.

Síðan er auðvitað efni málsins þannig að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu með ákvörðun sinni að kosningarnar til stjórnlagaþings væru ógildar á ýmsum tæknilegum, formlegum forsendum. Það er hins vegar pólitískt úrlausnarefni að taka ákvörðun um með hvaða hætti við viljum standa að undirbúningi að breytingum á stjórnarskránni. Ef Alþingi vill gera það, eftir niðurstöðu Hæstaréttar, með því að setja til þeirra verka einhvern tiltekinn hóp manna, til dæmis 25 einstaklinga, til dæmis þá sem fengu flest atkvæði (Forseti hringir.) í kjörinu, þá er ekkert sem bannar Alþingi að taka slíka ákvörðun.