139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla fyrst að svara síðari spurningunni. Í úrskurði Hæstaréttar fólst að kjörbréf voru afturkölluð. Það er ógilding á kosningunni. Því miður fólst í úrskurðinum engin leiðbeining um það hvernig skyldi bregðast við, en ef fram kæmi breytingartillaga um að byrja þetta ferli upp á nýtt þannig að það mundi taka hálft til eitt ár efast ég um, hv. þingmaður, að ég mundi treysta mér til að styðja það. Þá fyrst held ég að trúverðugleika þingsins og þess verkefnis sem það ætlaði að taka að sér og lofaði fyrir síðustu kosningar að gera, að endurskoða stjórnarskrána á kjörtímabilinu, þá mundi trúverðugleika þingsins og verkefnisins í heild vera stefnt í voða.

Ég vil minna á að það tók átta mánuði, held ég, að koma saman sátt um hvernig ferlið ætti að vinnast. Við höfum í þessu starfi reynt að halda þeirri sátt til haga og ég vona að okkur takist það áfram.