139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessari þingsályktunartillögu er getið um bókun eða álit meiri hluta samráðshópsins en það vantar álit minni hlutans. Ég vil spyrja hv. þingmann, fyrsta flutningsmann, hvort menn hafi ekki viljað að þau sjónarmið kæmu fram eða hvað valdi.

Í öðru lagi talar hv. þingmaður um þjóðaratkvæðagreiðslu en getur þess ekki að sú þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekkert gildi. Hún er ráðgefandi og ekkert annað. Um leið og samþykktar hafa verið breytingar á stjórnarskránni á að boða til almennra kosninga samkvæmt 79. gr. hennar og þá fara fram almennar kosningar til Alþingis, ekki um stjórnarskrána. Í þessu ferli er aldrei nokkurn tímann kosið um stjórnarskrána með bindandi hætti. Þjóðin tekur því miður ekki afstöðu til þess hvernig stjórnarskrá hún vill setja sér.

Ég bið hv. þingmann að svara þessari gagnrýni.