139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem ekki upp til að standa í Morfís-leikjum við hv. þingmann. Ég vil byrja á að þakka henni fyrir ræðu sína. Hún fór ágætlega yfir skoðanir sínar á þessu máli.

En, virðulegi forseti, hv. þingmenn verða að þola það að þeir séu spurðir út úr og verða að sýna þá kurteisi að svara og það eru ekki Morfís-æfingar að spyrja spurninga. Við erum ósammála um ýmsa hluti og það er ekki heldur Morfís-æfingar að vera ósammála, við erum á Alþingi til að ræða ólíkar skoðanir.

Það er ýmislegt athugavert við þetta mál að mínu viti en úr því að hv. þingmaður nefndi skoðanir Framsóknarflokksins í þessu máli er það þannig, eins og öllum er kunnugt, að það eru einfaldlega skiptar skoðanir um málið. Okkar ágæti fulltrúi í nefndinni fékk sjálfdæmi um hvað hann taldi best að gera. Það var ekki nein lína frá flokknum í því.

Ég er alfarið á móti því að fara þessa leið. Mér persónulega finnst þetta versta mögulega leiðin. Ég hefði viljað að við gæfum okkur tíma, ef við ætlum að halda stjórnlagaþing, til að vanda mjög til þess verks, gæfum okkur tíma til að semja skotheldar reglur og halda svo þingið eftir einhverja mánuði og gera það eins og fólk. Mér finnst þetta vera krókaleið fram hjá dómi Hæstaréttar svo ég segi bara mína skoðun á því.

Mig langar í fyrra andsvari að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi engar áhyggjur af því undir þeirri pressu sem þetta mál er unnið, af því að það virðist vera mikill vilji til að hraða málinu og það komi einhver niðurstaða, að það sé hætta á því að niðurstaðan verði snöggsoðin. Hér er um að ræða stjórnarskrá lýðveldisins og mér finnst við ekki mega umgangast hana — ég er ekki að segja að þingmenn geri það — eins og við séum að breyta fundarsköpum í einhverjum klúbbi eða einhverju slíku. Þetta er það stórt og mikið mál.