139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:27]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi eiginlega ekki spurningar hv. þingmanns, ég verð að játa það. En ég hlýt að mótmæla því harðlega að ég hafi í ræðu minni verið að slá Íslandsmet í útúrsnúningum. Þeir sem fara með útúrsnúninga í þessari umræðu eru þeir sem leggja tillöguna fram og halda því fram að þeir séu með því að fara að niðurstöðu Hæstaréttar. Þar liggur útúrsnúningurinn í málinu. Það er útúrsnúningur að þeir sem flytja tillögu sem gengur út á það að þeir 25 einstaklingar sem hlutskarpastir voru í stjórnlagaþingskosningu sem síðan var dæmd ógild verði skipaðir í stjórnlagaráð, séu að fara að niðurstöðu Hæstaréttar. Það eru þeir auðvitað ekki að gera. Þeir sem halda því fram fara með útúrsnúninga, ekki ég. Ég tek bara undir með þeim sem hafa gagnrýnt þennan tillöguflutning og hverjir eru það? Það er hæstv. innanríkisráðherra, æðsti yfirmaður dómsmála á Íslandi. Hann segir: Við skulum hlíta niðurstöðu dómsins. Og ég segi: Já, ég er sammála hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, um það.

Ég er líka sammála lagaprófessorunum Róbert Spanó og Ragnhildi Helgadóttur, sem hafa opinberlega lýst því yfir að með þeirri leið sem verið er að fara hér sé verið að fara á svig við niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli. Allar ávirðingar í minn garð um að ég sé með útúrsnúninga — ég kýs að taka þær ávirðingar og vísa þeim aftur til föðurhúsanna. Ég skil ekki í hverju þessir útúrsnúningar eiga að felast. Ég er einfaldlega að taka undir með hæstv. innanríkisráðherra. Það gerist ekki oft en ég geri það þó í þessu máli.