141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég segði ósatt ef ég segði að meðferð þessara skýrslna hefði ekki svolítið vafist fyrir okkur. Við ræddum það síðast fyrir hálfum mánuði, held ég, að við þyrftum að endurskoða ekki bara okkar verklag heldur líka samskiptin við Ríkisendurskoðun, þ.e. hvernig við færum með þessar skýrslur.

Í fyrravetur afgreiddum við sex skýrslur með álitum. Síðan kom í ljós að álitin komu kannski á dagskrá en skiluðu sér ekki alveg inn til nefndanna. Við ákváðum um daginn að þó að það væri ekki annað sem við gerðum fyrir þinglok með þessar skýrslur skyldum við samt koma okkur saman um eitthvert ferli í kringum þetta.

Skýrslurnar eru mjög misjafnar, sumar eru eftirfylgniskýrslur og við eyddum vafalaust allt of miklum tíma í þær í fyrra. Á hinn bóginn varð náttúrlega, eins og þingmaðurinn veit, trúnaðarbrestur á milli formanns og meiri hluta nefndarinnar og Ríkisendurskoðunar. Síðan þá höfum við úthlutað þrem skýrslum sem framsögumenn eru með.

Áður en ég hef formleg samskipti við ríkisendurskoðanda aftur vil ég fá svar við spurningunni: Hvers vegna tafðist þessi Oracle-skýrsla í átta ár? Ég þarf að fá svar við þeirri spurningu. (Gripið fram í.) Hver er forgangsröðunin hjá embættinu? (Gripið fram í: Er þetta hótun?) Nei, nei, þetta er engin hótun, ég er bara að segja að ég hef spurt um þetta hér áður. Ég hóta ekki, virðulegi þingmaður, (Forseti hringir.) það eru aðrir sem gera það. (Gripið fram í.)