143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál.

[16:17]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þó að ég kunni nú ágætlega við samstarfsflokk okkar í ríkisstjórn held ég að það sé tiltölulega langt þangað til ég fer að titla mig sjálfstæðismann og ég veit ekki betur en að ég sé með húsnæðismálin á minni könnu.

Varðandi það sem komið hefur fram í umræðunni ætla ég aðeins að renna yfir það. Mér fannst mjög áhugaverð hugmyndin hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur þar sem hún nefndi hvort rétt væri að þingið skoðaði það í meðferð séreignarsparnaðarfrumvarpsins sem talað verður fyrir núna í vikunni að þeir sem ekki eiga húsnæði hefðu möguleika á því að spara og nota séreignarsparnaðinn sem tryggingu fyrir húsaleigu. Það er þegar í frumvarpinu að fólk getur safnað fyrir kaupum á húsnæði, útborgun í húsnæði eða búseturétti og væri áhugavert að sjá hvað nefndinni fyndist um að þessu ákvæði yrði bætt við.

Ég hef heyrt það í vinnu verkefnisstjórnarinnar að menn hafa verið að skoða hugmyndir sem snúa að því að gera húsnæðissparnað að varanlegu sparnaðarformi. Þetta væri ein af þeim hugmyndum sem hugsanlega væri hægt að notast við þar.

Það skal alveg viðurkennast að þegar ég kom í ráðuneytið kom mér eilítið á óvart, þrátt fyrir að ég hefði setið í hópi sem mótaði húsnæðisstefnu á síðasta kjörtímabili, að þegar ég fór að fara yfir þann fjölda af skýrslum sem unnar hafa verið um húsnæðismálin sá ég hversu lítið hefur verið fjallað um félagslega þáttinn á faglegan og efnismikinn máta. Stór hluti af vinnu verkefnisstjórnarinnar hefur einmitt snúið að því að kalla eftir upplýsingum frá nágrannalöndunum til að átta sig á því hvernig menn fjármagna hlutina og hvernig menn gera hlutina þar, vegna þess að þessi gögn, þessar upplýsingar, hafa ekki verið til staðar, kannski vegna þess að við höfum verið svo upptekin af því að horfa á séreignarstefnuna og hvernig best sé að lána til húsnæðiskaupa, en ekki hvernig maður getur byggt upp félagslegan hluta húsnæðisins.

Ég tel að mjög mikið sé komið af hugmyndum hvað þetta varðar. Það á að geta stutt (Forseti hringir.) við hugmyndir sveitarfélaga víðs vegar um land, ekki bara í Reykjavík (Forseti hringir.) og Hafnarfirði, því að ég hef svo sannarlega (Forseti hringir.) fundið fyrir því að það er áhugi úti um allt land á því að byggja upp virkan leigumarkað. Við gætum eflaust talað um þetta mál töluvert lengur en ég þakka kærlega fyrir þessa góðu umræðu.