143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

húsnæðismál Listaháskóla Íslands.

421. mál
[17:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um framtíðarsýn hans varðandi húsnæðismál Listaháskóla Íslands. Listaháskólinn er ung stofnun og hefur verið úti um alla borg, er nú eftir því sem mér telst til á þremur stöðum, þ.e. í Laugarnesinu, Þverholti og síðan á Sölvhólsgötu. Fyrir lágu miklar áætlanir eins og við munum öll um uppbyggingu við Laugaveg og síðan varð hér efnahagshrun. Ég tel mig því bera ákveðna ábyrgð á stöðu mála hjá Listaháskólanum, ekki á efnahagshruninu en því að ekki varð úr byggingarframkvæmdinni. Þetta er eitt af því sem var skorið niður á þeim tíma.

Það breytir því ekki að ég hef verið áhugasöm um að koma megi húsnæðismálum Listaháskólans fram á veg. Eitt af því sem talsmenn skólans töluðu mjög fyrir var að það væri að minnsta kosti mikilvægt að átta sig á því hver framtíðarsýn stjórnvalda væri. Sjálf taldi ég uppbygginguna við Laugaveg afskaplega dýra og ekki endilega mjög hentuga fyrir utan sjónarmið í skipulagsmálum. Það sem var ákveðið að gera var að kanna sérstaklega tvo staði. Ég vitna til þess í þessari fyrirspurn, þ.e. í Laugarnesið annars vegar og hins vegar Sölvhólsgötureitinn. Settur var niður starfshópur mennta- og menningarmálaráðuneytis, Reykjavíkurborgar og Listaháskólans til að meta sérstaklega þessa tvo kosti. Laugarnesið þekkjum við, þar er meðal annars myndlistardeild skólans til húsa í gömlu sláturhúsi. Sú staðsetning hefur kosti og galla.

Sölvhólsgötureiturinn hefur líka sína kosti og galla. Ég ætla bara að segja fyrir mig persónulega, svo enginn gangi gruflandi að því, að ég hefði talið það mjög spennandi staðsetningu fyrir Listaháskóla Íslands út frá skipulagi að hafa skólann í jaðri miðborgarinnar, getum við sagt, á reit sem er ekki mjög spennandi núna. Þar voru hins vegar fyrirhugaðar stjórnarráðsbyggingar sem mér sem þingmanni Reykjavíkur finnst ekkert sérstaklega spennandi fyrir þróun miðborgarinnar. Það er heppilegt að hæstv. ráðherra er líka þingmaður Reykjavíkur og örugglega áhugamaður um skipulagsþróun hennar en á þetta þarf að horfa út frá ýmsu öðru, ekki bara út frá hagsmunum borgarinnar, getum við sagt, hvar þessi starfsemi byggist upp heldur líka auðvitað kostnaðinn. Það liggur fyrir að þó að Listaháskólinn sé sjálfseignarstofnun hangir þessi framkvæmd að sjálfsögðu á fjármunum.

Ég er ekki að ímynda mér miðað við stöðu mála að það verði svigrúm á næstunni til að fara í framkvæmdir við Listaháskólann. Ég vil ítreka það líka í fyrirspurninni en mér finnst mikilvægt að við fáum að heyra hvort þessi starfshópur hafi lokið störfum og hafi kostnaðarmat á þessum tveimur valkostum. Hefur hæstv. ráðherra einhverja framtíðarsýn um skólann, einhverja óskavalkosti miðað við þá stöðu sem er uppi og líka ekki miðað við þá stöðu? Hvar sæi hæstv. ráðherra þennan skóla fara best?