144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

samkeppni á smásölumarkaði.

[15:07]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu og málshefjanda fyrir að vekja athygli á málinu sem hann hefur reyndar verið duglegur að gera í þingsal. Mig langar aðeins að koma inn á þessa skýrslu og aðgerðir sem stjórnvöld gætu farið í sem Samkeppniseftirlitið leggur beinlínis til sem miðar að því að auka samkeppni í landbúnaði. Það finnst mér að við mættum ræða meira í þingsalnum. Mér finnst þetta mjög vel sett upp hjá Samkeppniseftirlitinu, það er með góðar ábendingar og ég beini því til stjórnvalda að skoða þennan þátt sérstaklega. Hér er einmitt tekið dæmi þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Reynslan sýnir að efling samkeppni í landbúnaði styrkir viðkomandi grein og kemur neytendum einnig til góða.“

Það er tekið dæmi.

„Í kjölfar þess að ólögmætt samráð í framleiðslu og dreifingu á grænmeti var afhjúpað á árinu 2001“ — við munum nú öll eftir þeim skandal — „mæltust samkeppnisyfirvöld til þess við landbúnaðarráðherra að afnumdar yrðu samkeppnishindranir á grænmetismarkaði. Stjórnvöld urðu við tilmælunum, féllu frá markaðstruflandi aðgangshindrunum á smásölustigi, en tóku fremur upp stuðning til innlendra framleiðenda á heildsölustigi …“

Þetta hafði mjög jákvæð áhrif, eins og við þekkjum. Innlend framleiðsla jókst, smásöluverð lækkaði og neyslan jókst. Þessar breytingar bættu bæði hag neytenda og grænmetisframleiðenda. Þetta er gott dæmi en ég skil ekki alveg af hverju við erum ekki tilbúin að stíga stærri og fleiri skref hvað þetta varðar. Í næsta kafla eru samkeppnishömlur í mjólkuriðnaði. Ástandið á þeim markaði er ekki viðunandi. Ég veit eiginlega ekki alveg fyrir hverja það er, ég held að það sé hvorki fyrir bændur né neytendur. Það er miklu frekar fyrir framleiðendurna hvernig það allt (Forseti hringir.) er uppbyggt. Ég held að við ættum að horfa aðeins á tillögur Samkeppniseftirlitsins þegar við ræðum þessi mál.